Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Fundaði með viðskiptaráðherra Suður-Kóreu

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Ahn Duk-geun viðskiptaráðherra Suður Kóreu. - mynd

Aukin viðskipti og efnahagsleg samvinna milli Íslands og Suður Kóreu var á meðal umræðuefna Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra með Ahn Duk-geun viðskiptaráðherra Suður-Kóreu í Seúl. Samningar á sviði tvísköttunar og fríverslunar eru í gildi milli landanna en árið 2020 nam umfang inn- og útflutnings milli Íslands og Suður-Kóreu um 8 milljörðum króna. Suður-kóresk fyrirtæki hafa fjárfest í íslenskum fyrirtækjum á umliðnum árum, má þar nefna kaup Kóreubúa á tölvuleikjafyrirtækinu CCP árið 2018 fyrir um 46 milljarða íslenskra króna.

Lilja kynnti sér einnig stuðningskerfi suður-kóresks viðskiptalífs er hún heimsótti systurstofnun Íslandsstofu í Kóreu, KOTRA (Korea Trade Investment Promotion Agency) sem styður við um 200.000 suður-kóresk fyrirtæki í alþjóðaviðskiptum sem og erlend fyrirtæki sem vilja fjárfesta í Suður-Kóreu.

Þá heimsótti Lilja höfuðstöðvar íslenska lyfjafyrirtækisins Alvogen í Suður-Kóreu en um 400 manns starfa hjá fyrirtækinu í landinu, flestir við sölu og markaðssetningu.

 

Heimsókn ráðherra í höfuðstöðvar Alvogen í Suður Kóreu

Heimsókn ráðherra í höfuðstöðvar Alvogen í Suður-Kóreu

Lilja átti einnig fund með Jeon Byung Geuk, aðstoðarmenningar- og ferðamálaráðherra Suður-Kóreu, þar sem þau lögðu grunn að undirbúningi nánara samstarfs landanna á þeim sviðum, meðal annars með það að markmiði að fjölga kóreskum kvikmynda- og tónlistarverkefnum á Íslandi sem og aukinni áherslu á ferðaþjónustu.

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Jeon Byung Geuk aðstoðarmenningar- og ferðamálaráðherra Suður Kóreu.

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Jeon Byung Geuk aðstoðarmenningar- og ferðamálaráðherra Suður-Kóreu.

„Suður-Kórea er stórveldi í alþjóðaviðskiptum en um margra áratugaskeið hefur landið hlúð vel að umgjörð í kringum atvinnulífið og unnið markvisst í að auka samkeppnishæfni sína. LG, Samsung, Hyundai og Kia eru dæmi um stór suður-kóresk fyrirtæki sem náð hafa langt í heiminum. Það er ýmislegt sem veitir mér innblástur hér í Seúl og það eru ótvíræð tækifæri til þess að auka samvinnu milli Íslands og Suður-Kóreu,‘‘ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Fundir menningar- og viðskiptaráðherra eru hluti af ferð viðskiptasendinefndarinnar til Suður-Kóreu í tilefni af 60 ára stjórnmálasambandi milli landanna. Ferðin er skipulögð af utanríkisráðuneytinu, Íslandsstofu og menningar- og viðskiptaráðuneytinu og hefur það að markmiði að auka viðskipti milli Íslands og Suður-Kóreu. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira