Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2022 Matvælaráðuneytið

Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðið bannar löndun á karfa af Reykjaneshrygg

Á 40. ársfundi Norðuraustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC) sem haldinn var í London dagana 15.-18. nóvember, samþykktu aðildarríki ráðsins að banna löndun, umskipun eða aðra þjónustu við skip sem stunda veiðar á karfa á Reykjaneshrygg. Rússar hafa haldið þar áfram karfaveiðum þrátt fyrir skýra vísindaráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Tilgangur samþykktarinnar er að þrengja að þessum veiðum og þrýsta á að öll aðildarríki samþykki vísindaráðgjöf ICES sem grunn veiðistjórnunar.

Ekki liggur fyrir samkomulag varðandi veiðar úr deilistofnunum síld, kolmunna og makríl. Samþykktu ríkin að setja sér takmarkanir fyrir fyrrgreindar tegundir. Einnig væri öðrum en aðildarríkjum óheimilt að veiða á stjórnunarsvæði NEAFC. Auk þessa voru samþykktar ráðstafanir varðandi ýsu á Rockall-banka og nokkra aðra fiskistofna.

Á fundinum var jafnframt samþykkt umtalsverð útvíkkun á brottkastsbanni NEAFC sem nær nú til fleiri tegunda en áður. Reglur varðandi umskipun afla voru einnig hertar, og samþykkt var að hefja vinnu við allsherjar endurskoðun á reglum varðandi umskipun.
Norðuraustur-Atlantshafsfiskveiðiráðið er leiðandi á heimsvísu í vernd viðkvæmra botnvistkerfa svo sem kóralla og svampa og í veiðistjórn á djúpsjávartegundum. Á grunni vísindaráðgjafar frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu var samþykkt tillaga Íslands um að framlengja þær svæðalokanir sem í gildi eru í þessu sambandi.

Um árabil hefur NEAFC bannað veiðar á háf. Í kjölfar verndunar hefur stofninn braggast það mikið að ICES telur ekki lengur þörf á veiðibanni. Veiði á grunni vísindaráðgjafarinnar var því leyfð innan marka til að tryggja að stofninum hnigni ekki aftur.
Á fundinum voru áberandi deilur vegna veiða í Barentshafi sem Ísland stóð að mestu utan við.
Því tengt var samþykkt bann við notkun yfirpoka á rækjutrolli til að hindra meðafla á rækjuveiðum af tegundum svo sem grálúðu og þorski. Evrópusambandið hefur deilt við Noreg og Rússland um fyrirkomulag þessara veiða sem íslensk skip stunda ekki. Deilan tengist m.a. stöðu Rússa innan NEAFC. Var það afstaða íslensku sendinefndarinnar að vegna innrásar Rússa í Úkraínu væri ekki verjandi að láta atkvæði Íslands verða til þess að Rússar næðu að koma fram sinni stefnu innan NEAFC.

NEAFC fer með stjórn fiskveiða utan lögsagna ríkja í Norðaustur-Atlantshafi. Aðilar að eru Bretar, Danmörk (v. Færeyja og Grænlands), Evrópusambandið, Ísland, Noregur og Rússland.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni
17. Samvinna um markmiðin
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
12. Ábyrð neysla og framleiðsla

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum