Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Aukning lögð til á fjárveitingum til löggæslu, fangelsa og Landhelgisgæslu

Fjárlaganefnd hafa borist breytingatillögur við fjárlagafrumvarp frá fjármálaráðuneytinu  þar sem lagðar eru til verulega auknar fjárheimildir, eða um 2,5 milljarðar, til verkefna á vegum dómsmálaráðuneytisins. Ítarleg greining var unnin innan dómsmálaráðuneytisins á aukinni fjárþörf í málaflokkum sem helst tengjast almanna- og réttaröryggi. Sú greining var unnin í samvinnu við viðeigandi stofnanir og hefur nú verið lögð til grundvallar í tillögum fjármála- og efnahagsráðuneytis til fjárlaganefndar.

Í tillögunum er lögð til veruleg aukning á fjárheimildum til lögreglu, annars vegar til þess að styrkja almenna löggæslu og hins vegar til þess að efla viðbragð lögreglu og ákæruvalds þegar kemur að aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi. Fjárveitingar verða samtals auknar um 1.400 milljónir, sem varið verður til eflingar lögreglu og til þess að efla viðbragð gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Þá er gert ráð fyrir aukningu fjárveitinga til Landhelgisgæslunnar sem nemur um 600 milljónum og munar þar mestu um 370 milljóna framlag til að mæta auknum eldsneytiskostnaði.

Lagt er til að um 250 milljónum verði veitt til fangelsismála í því skyni að efla rekstur fangelsanna. Með auknum fjárveitingum verður lögð áhersla á að auka öryggi og bæta aðstöðu í fangelsunum. Þá verður bætt við fangavörðum sem mun meðal annars verða til þess að hægt verður að lengja heimsóknartíma barna í fangelsin og jafnframt nýta fangelsin betur með það að markmiði að refsingar fyrnist ekki.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum