Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hagvöxtur hvergi hærri en hér miðað við helstu samanburðarlönd

Hagvöxtur var 7,3% á 3.ársfjórðungi samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun. Hagvöxturinn á ársfjórðungnum er talsvert meiri en í samanburðarríkjum Íslands en helstu drifkraftar hans voru mikill vöxtur í útflutningi og kröftug einkaneysla.

Þá hefur landsframleiðsla á föstu verðlagi ekki áður mælst meiri og munar þar nær 4% frá sama tíma 2019. Landsframleiðsla á mann hefur aftur á móti ekki náð sama marki og þá.

 

 

Framleiðni jókst og hefur aðeins einu sinni verið hærri á þriðja ársfjórðungi

Þróttmikill hagvöxtur eftir faraldurinn hefur ekki síst verið drifinn áfram af mikilli fjölgun starfandi fólks. Unnum stundum fjölgaði á þriðja ársfjórðungi 2022 borið saman við sama tímabil árið 2021 en vöxturinn var þó ekki jafnmikill og vöxtur landsframleiðslunnar sem gefur til kynna að framleiðni þjóðarbúsins hafi aukist. Framleiðni á þriðja ársfjórðungi hefur aðeins einu sinni verið hærri og var það árið 2019. Sé litið til lengra tímabils hefur framleiðni þó staðnað.

Mikil óvissa ríkir um þróun framleiðni eftir faraldurinn en nauðsynlegt er að hún nái sér að nýju á strik, líkt og árin fyrir faraldurinn, til þess að stuðla að sjálfbærni opinberra fjármála. Þar verður þó að horfast í augu við þá staðreynd að framleiðnivöxtur hefur farið minnkandi alþjóðlega undanfarna áratugi.

 
Hægir loks á vexti einkaneyslu

Þrátt fyrir jákvætt framlag einkaneyslu til hagvaxtar tók að hægja á vexti einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi þegar hún óx um 7,2% að raunvirði en á fyrri fjórðungum ársins nam vöxturinn 10-15%. Minni vöxtur var á fjórðungnum í t.d. ökutækjakaupum en mikill vöxtur var áfram í útgjöldum Íslendinga erlendis. Útlit er fyrir áframhaldandi sterkan neysluvöxt á fjórða ársfjórðungi.

Mikill bati á vöru- og þjónustujöfnuði

Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var jákvætt á þriðja ársfjórðungi líkt og á öðrum ársfjórðungi líðandi árs. Árlegur vöxtur út- og innflutnings helst nær sá sami og á fyrri ársfjórðungi og stafar fyrst og fremst af auknum þjónustuviðskiptum. Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði á þriðja ársfjórðungi nam um 4,0% af VLF samanborið við 2,1% í fyrra. Hefur afgangurinn aldrei verið meiri síðan að faraldurinn barst til landsins en hann er enn þá helmingi minni en á sama ársfjórðungi 2019 sem skýrist af meiri innflutningi nú.

Hægir á vexti eftirspurnar hins opinbera

Samneysla jókst um 1,8% á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama tímabil í fyrra en vöxtinn má að miklu leyti rekja til kaupa hins opinbera á vörum og þjónustu. Áætlað er að opinber fjárfesting hafi aukist um 13,5% að raunvirði borið saman við sama tímabil fyrra árs en dróst saman um 0,7% ef leiðrétt er fyrir færslu Landsbankahússins til hins opinbera. Sé leiðrétt fyrir því er vöxtur eftirspurnar hins opinbera samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofu hóflegur á ársfjórðungnum.

 

Lítill vöxtur í fjárfestingu en ekki ólíklegt að hún aukist talsvert við lok ársins

Á þriðja ársfjórðungi þessa árs er talið að fjármunamyndun í heild hafi vaxið um 2,2% samanborið við sama tímabil fyrra árs. Atvinnuvegafjárfesting jókst um 5,7% á ársfjórðungnum þegar leiðrétt hefur verið fyrir færslu fasteignar Landsbankans yfir til hins opinbera. Líkt og síðastliðna fjóra ársfjórðunga reiknast samdráttur í fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis á milli ára. Það er á skjön við aðrar vísbendingar um íbúðafjárfestingu sem benda til talsverðs vaxtar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum