Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Góðan daginn, faggi: Styrkur til sýninga í framhaldsskólum úti á landi

Bjarni Snæbjörnsson, leikari og einn af höfundum sýningarinnar, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson. félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt leikfélaginu Stertabendu styrk að upphæð einni milljón króna til að sýna leikverkið Góðan daginn, faggi í framhaldsskólum á landsbyggðinni. Markmiðið er að auka umræður og sýnileika innan framhaldsskólanna um hinseginleikann og fjölbreytileika. Einnig er markmiðið að fræða nemendur og starfsfólk og vinna þannig gegn hatursorðræðu, fordómum og vanlíðan barna og unglinga.

Leiksýningin Góðan daginn, faggi var frumsýnd í fyrra og hefur fengið afar góðar viðtökur. Sýningin er sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur þar sem fertugur hommi leitar skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru, einn blíðviðrisdag. Handrit verksins er unnið upp úr dagbókum Bjarna Snæbjörnssonar, leikara verksins, frá yngri árum til dagsins í dag. Höfundarnir eru hinsegin sviðslistafólk sem öll ólust upp á landsbyggðinni, Bjarni er frá Tálknafirði, Axel Ingi Árnason, tónskáld, úr Eyjafjarðarsveit og Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri, frá Hrísey.

Aðstandendur sýningarinnar hafa síðan í haust sýnt verkið í fjölda grunnskóla í samstarfi við Samtökin ’78 og Þjóðleikhúsið. Næst verður sjónum beint að framhaldsskólanemum og er styrkurinn frá félags- og vinnumarkaðsráðherra hluti af þeirri vegferð. Forsætisráðherra hefur einnig styrkt sýningarnar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Það er bráðnauðsynlegt að vinna gegn því bakslagi sem orðið hefur í málefnum hinsegin fólks og beita öllum leiðum í þeirri baráttu. Ekki er nóg að tryggja löggjöf sem við getum verið stolt af heldur þurfum við líka að vinna kerfisbundið gegn fordómum. Góðan daginn, faggi á brýnt erindi við íslenskt samfélag.

Bjarni Snæbjörnsson, leikari og einn af höfundum sýningarinnar:

Við vonumst til að ná að fara með sýninguna í alla 22 framhaldsskólana á landsbyggðinni. Það er okkur aðstandendum sýningarinnar sérstaklega mikilvægt þar sem við ólumst öll upp á landsbyggðinni og viljum vera börnum og unglingum þær fyrirmyndir sem við sjálf hefðum þurft á að halda í okkar uppvexti. Það er sömuleiðis einlæg von okkar að með því að sýna ungmennum verkið og skapa umræður meðal þeirra getum við unnið gegn einangrun hinsegin unglinga, ofbeldi, fordómum og hatursorðræðu sem hefur sýnt sig að undanförnum að færist í aukana.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum