Hoppa yfir valmynd
2. desember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ræddu norrænt samstarf á formennskuári Íslands 2023

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ásamt öðrum fundargestum að loknum fundi milli fráfarandi og verðandi formennskuríkja í Norrænu ráðherranefndinni og Norðurlandaráði. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, sótti fyrr í vikunni fund í Osló milli fráfarandi og verðandi formennskuríkja í Norrænu ráðherranefndinni og Norðurlandaráði, ásamt fulltrúum frá báðum skrifstofum. Á fundinum tóku þátt samstarfsráðherra Noregs sem lýkur formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í lok árs 2022, og samstarfsráðherra Íslands, sem tekur við formennsku í upphafi árs 2023. Einnig voru þar forseti Norðurlandaráðs á árinu 2022 frá Finnlandi og verðandi forseti Norðurlandaráðs 2023 frá Noregi. 

Á fundinum var rætt um verklag og samstarf fram undan milli Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs við gerð fjárhagsáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2024, og innlegg frá Norðurlandaráði við gerð hennar. Fundinum var ætlað að tryggja yfirfærslu þekkingar og skapa samfellu milli fráfarandi og verðandi formennskuríkja á þessu sviði.  

Á fundinum var einnig rætt um ferli við gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar sem taka mun gildi árið 2025 vegna framtíðarsýnar fyrir árið 2030. Bæði verkefnin munu koma til kasta Íslands sem formennskuríkis í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári. Einnig var rætt um hugsanlega samstarfsfleti og sameiginleg verkefni milli formennskuríkjanna í Norrænu ráðherranefndinni og Norðurlandaráði á árinu 2023. 

Í tengslum við fundinn átti Guðmundur Ingi jafnframt aðra fundi til undirbúnings formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum