Hoppa yfir valmynd
7. desember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

85% aukning í veltu kvikmyndagerðar

Velta íslensks kvikmyndaiðnaðar hefur aukist um 85% á síðustu fimm árum og nemur nú um 30 milljörðum króna á ársgrundvelli og vel á fjórða þúsund einstaklinga starfa við kvikmyndagerð. Fjármagn til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi er aukið um 4 milljarða króna fyrir aðra umræðu fjárlaga 2023, en alls verða þá 5,7 milljarðar til endurgreiðslu á næsta ári. Að auki mun framlag í kvikmyndasjóð vaxa um 250 milljónir króna sem þýðir að ekki þarf að fresta verkefnum sem fengið hafa vilyrði frá sjóðnum.

„Gróskan í kvikmyndagerð er einstök. Ég er þakklát fyrir þann víðtæka stuðning sem að málið hefur fengið á Alþingi, bæði með því að hækka endurgreiðslurnar í sumar í allt að 35% og nú með því að færa aukið fjármagn undir endurgreiðsluliðinn. Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að stuðningur við skapandi greinar hafi jákvæð margföldunaráhrif á samfélagið og er viss um að þessi breyting muni efla innlenda kvikmyndagerð og draga stór erlend fjárfestingarverkefni til landsins,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Með framsækinni kvikmyndastefnu til 2030 hafa stjórnvöld markað skýra sýn til að tryggja greininni bestu mögulegu aðstæður til að vaxa og dafna – enda hefur Ísland mannauðinn, náttúruna og innviðina til þess að vera framúrskarandi kvikmyndaland.

Velta í framleiðslu á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni hefur aukist mikið á síðustu árum. Sérstaka athygli vekur að árin 2020 og 2021 jókst velta í greininni þrátt fyrir margvíslegar áskoranir vegna covid faraldursins. Milli áranna 2019 og 2020 jukumst umsvif um tæplega 6,5 ma.kr. eða sem nemur 50% milli ára. Vöxturinn hélt áfram árið 2021 þegar veltan jókst um frekari 1,4 ma.kr. eða 7% frá fyrra ári. Aukningin skýrist m.a. á því að umsvif erlendra verkefna jukust þrátt fyrir faraldurinn þar sem aðgerðir stjórnvalda til að takast á við faraldurinn gerðu Ísland að eftirsóknarverðum stað fyrir framleiðslu á efni. Það sem af er þessu ári (fyrstu 8 mánuði ársins) hefur veltan aukist enn frekar um 2,9 ma.kr. eða 25% miðað við sama tímabil í fyrra.

Athugið að hér er ekki með talin velta vegna sjónvarpsútsendinga og dagskrárgerðar

Endurgreiðslukerfinu var upphaflega komið á árið 1999 hér á landi en síðan þá hafa umsvif í kvikmyndagerð aukist talsvert. Ísland var á meðal fyrstu landa í Evrópu til þess að taka upp endurgreiðslukerfi í kvikmyndagerð en síðan þá hafa fleiri ríki innleitt stuðningskerfi í kvikmyndagerð.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum