Hoppa yfir valmynd
7. desember 2022 Dómsmálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Greining unnin á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis

Dómsmálaráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra í samvinnu við heilbrigðisráðherra hafa ákveðið að ráðast í greiningu á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis. Þetta er í samræmi við tillögu starfshóps um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi en starfshópinn skipa Sigríður Björk Guðjónsdóttir, Guðfinnur Sigurvinsson, Hildur Sunna Pálmadóttir og Eygló Harðardóttir.    

Þjónustumiðstöðvarnar eru Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri og Sigurhæðir á Selfossi.

Greiningunni er ætlað að kortleggja aðkomu, hlutverk og ábyrgð ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila, einkum þolendasamtaka, að rekstri þeirra og leggja drög að framtíðarfyrirkomulagi.  Meginþorri opinbers stuðnings við þolendamiðstöðvarnar hefur komið frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, einstökum lögregluembættum og sveitarfélögum.  Félagasamtök hafa sinnt viðtölum og ráðgjöf við þolendur og Sigurhæðir á Selfossi voru stofnaðar að frumkvæði Soroptimista á Suðurlandi. Kristín Hjálmarsdóttir, sjálfstætt starfandi jafnréttisráðgjafi hefur verið fengin til að vinna úttektina.

Í aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu fyrir árin 2018-2022 var bent á  að tryggja þurfi að Bjarkarhlíð verði að langtímaúrræði, en ekki tímabundnu verkefni. Undir það er tekið í þingsályktun um áætlun fyrir árin 2019-2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess og lögð áhersla á að Bjarkarhlíð verði fest í sessi sem þverfaglegur samstarfsvettvangur opinberra stofnana og frjálsra félagasamtaka.  Ekki er fjallað um aðrar þjónustumiðstöðvar í áætlununum og eru ekki til staðar lög um starfsemi þeirra né hvernig standa eigi að þverfaglegri þjónustu vegna kynbundins ofbeldis. 

Markmið úttektarinnar er því að finna hentugustu leiðina til að tryggja starfsemi þjónustumiðstöðva á Íslandi til framtíðar, út frá skiptingu verkefna milli ráðuneyta og stjórnsýslustiga og móta stefnu um aðkomu lögreglunnar að þjónustumiðstöðvunum og samræmingu við verklag lögreglu í heimilisofbeldismálum og við rannsókn á öðrum ofbeldisbrotum.

Dómsmálaráðherra hefur jafnframt tekið ákvörðun um að veita lögregluembættunum sem hafa beina aðkomu að stjórnum þjónustumiðstöðva 18 m.kr. styrk til að þróa áfram svæðisbundið og þverfaglegt samstarf til að efla stuðning og vernd brotaþola í samræmi við ákvæði Istanbúl-samningsins.  Embættin munu jafnframt veita nauðsynlega aðstoð við greiningu á framtíðarfyrirkomulagi þjónustumiðstöðvanna og huga að því að samræma og kynna starfsemi þjónustumiðstöðvanna á landsvísu.  Styrknum verður skipt hlutfallslega út frá fjölda heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamála hjá lögreglunni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum