Hoppa yfir valmynd
12. desember 2022 Forsætisráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stuðningur stjórnvalda vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til aðgerða í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Eru aðgerðirnar til þess fallnar að styðja við markmið samninganna um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks og skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, lækkun verðbólgu og vaxta.

Aðgerðir stjórnvalda snúa einkum að stuðningi við lífskjör lág- og millitekjufólks með markvissum aðgerðum í húsnæðismálum og auknum stuðningi við barnafjölskyldur. Áhersla er lögð á fjölgun íbúða og uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með auknum stofnframlögum, endurbótum í húsnæðisstuðningi og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.

Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðningur aukinn verulega en með breytingunum fjölgar fjölskyldum sem fá barnabætur. Stjórnvöld munu einnig á samningstímabilinu vinna að ýmsum umbótum, m.a. er varða heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði, afkomutryggingu í fæðingarorlofi, atvinnuleysistryggingum og ábyrgðarsjóði launa auk málefna vinnustaðanámssjóðs.

Þá verður stuðningur veittur til að auka aðhald á neytendamarkaði með því að bæta aðgengi almennings að upplýsingum um þróun verðlags og skapa þannig hvata fyrir fyrirtæki til að halda aftur af verðhækkunum.

Í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023 lagði ríkisstjórnin einnig fram sérstakar aðgerðir í nokkrum veigamiklum málaflokkum sem styðja við markmið samninganna og treysta grundvöll lífskjara en þar vega þyngst yfir 12 milljarða aukning til heilbrigðismála og hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna í 200.000 krónur á mánuði. 

Nánar um aðgerðirnar

Húsnæðismál

  • Fjölgun nýrra íbúða.
    Stjórnvöld munu í samningum við sveitarfélög á grundvelli rammasamkomulags um uppbyggingu íbúða næstu 10 árin hafa að markmiði að auka lóðaframboð og veita nauðsynlegan fjárstuðning til að tryggja íbúðauppbyggingu.
  • Fjölgun almennra íbúða.
    Áfram verður unnið að öflugri uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu. Stofnframlög ríkisins til að auka framboð íbúða á viðráðanlegu verði í almenna íbúðakerfinu verða 4 milljarðar króna á árinu 2023.
  • Endurbætur verða gerðar á húsnæðisstuðningi.
    • Húsnæðisbætur leigjenda hækka um 13,8% í upphafi næsta árs og tekjuskerðingarmörk húsnæðisbóta hækka um 7,4%.
    • Eignaskerðingamörk í vaxtabótakerfinu hækka um 50% í upphafi næsta árs.
    • Almenn heimild til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða ráðstöfunar inn á höfuðstól verður framlengd til ársloka 2024.
    • Fyrirkomulag sérstaks húsnæðisstuðnings og húsnæðisbóta til leigjenda verður tekið til endurskoðunar á samningstímanum með það að markmiði að tryggja jafnræði og einfalda kerfið fyrir leigjendur.
  • Bætt réttarstaða og húsnæðisöryggi leigjenda:
    • Aðilar vinnumarkaðarins fá aðkomu að starfshópi um endurskoðun húsaleigulaga til að bæta réttarstöð og húsnæðisöryggi leigjenda.

Barnabætur

  • Barnabótakerfið verður einfaldað, stuðningur við barnafjölskyldur efldur og fjölskyldum sem njóta stuðnings fjölgað.
  • Dregið verður úr skerðingum í barnabótakerfinu, jaðarskattar af völdum barnabóta lækkaðir og skilvirkni og tímanleiki bótanna aukinn.
  • Teknar verða upp samtímagreiðslur barnabóta þannig að biðtími eftir bótum verði aldrei lengri en 4 mánuðir eftir fæðingu barns.
  • Heildarfjárhæð barnabóta verður 5 milljörðum hærri en í núverandi kerfi á næstu tveimur árum.

Önnur mál

  • Veittur verður 10 m.kr. viðbótarstuðningur til að auka aðhald á neytendamarkaði.
  • Skoðaðar verða leiðir til að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til útleigu með því að rýmka heimildir þeirra til fjárfestinga leigufélögum.
  • Lagt verður mat á greiðslur og hámarksfjárhæðir í Fæðingarorlofssjóði og ábyrgðasjóði launa með það að markmiði að þær verði endurskoðaðar á árinu 2024. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins munu sameiginlega leggja mat á tekjuöflun og ráðstöfun tryggingagjalds með það að markmiði að tryggja langtímajafnvægi í fjármögnun þeirra réttinda sem það stendur undir í Ábyrgðasjóði launa, Fæðingarorlofssjóði, starfsendurhæfingarsjóði og Atvinnuleysistryggingasjóði.
  • Nefnd um heildarendurskoðun atvinnuleysistrygginga skal ljúka vinnu sinni eigi síðar en í lok apríl 2023. Unnið verður að innleiðingu á umbótum í atvinnuleysistryggingakerfinu á samningstímanum í samræmi við tillögur nefndarinnar.
  • Málefni og fjármögnun vinnustaðanámssjóðs verði tekin til endurskoðunar í tengslum við gerð fjármálaáætlunar á árinu 2023 til að styðja við markmið um aukið vægi starfsnáms.

Aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinna vegna afgreiðslu fjárlaga

Ríkisstjórnin lagði á dögunum til sérstakar aðgerðir í nokkrum veigamiklum málaflokkum vegna afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023 sem styðja við markmið samninganna og treysta grundvöll lífskjara. Heilbrigðismál vega þar þyngst en lögð er til yfir 12 milljarða aukning í þeim málaflokki. Er gert ráð fyrir að framlögin renni bæði til rekstrar sjúkrahúsa og heilsugæslunnar, eða um 4,3 milljarðar króna. Einnig er rík áhersla á að framlögin nýtist í beina þjónustu við sjúklinga, svo sem með því að vinna niður biðlista eftir liðskiptaaðgerðum og með auknum framlögum til heimahjúkrunar og aðgerða til að dreifa álagi í heilbrigðisþjónustu.

Meðal annarra mikilvægra mála má nefna að lagður er til rúmur milljarður til hækkunar frítekjumarks öryrkja í 200.000 krónur á mánuði og að gefnir verði eftir 5 milljarðar króna af tekjuskatti einstaklinga en útsvarstekjur sveitarfélaga hækkaðar á móti til að bæta afkomu þeirra í tengslum við stöðu á málaflokki fatlaðs fólks.

Þá er gert ráð fyrir stórauknum framlögum á sviði almanna- og réttaröryggis, þar á meðal um 900 milljónum króna til lögreglunnar og hálfs milljarðs hækkun í aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi.

 

  • Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra - mynd
  • Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum