Hoppa yfir valmynd
14. desember 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Réttindi og þátttaka barna í málefnum þeirra

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Alex Conte, framkvæmdastjóri Child Rights Connect - mynd

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði nýlega samning við alþjóðlegu samtökin Child Rights Connect. Samningurinn styður við réttindamiðaða nálgun í málefnum barna á Íslandi og innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hann fellur vel að stefnu Íslands um Barnvænt Ísland og samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Með samningnum mun Child Rights Connect jafnframt aðstoða Ísland við að vinna úr lokaathugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenska ríkisins um innleiðingu Barnasáttmálans hérlendis. Samtökin munu aðstoða ráðuneytið við að þróa þátttökutækifæri fyrir börn og unglinga til að segja sína skoðun á athugasemdunum og viðbrögðum við þeim. Alþjóðlegur ráðgjafahópur barna hjá Child Rights Connect mun einnig taka þátt í vinnunni, auk ungmenna frá Íslandi.

Stefnt er að því að úr þeirri vinnu verði til leiðbeiningar fyrir önnur lönd til að fara eftir um virka aðkomu barna og ungmenna að samtalinu og úrvinnslu athugasemda Barnaréttarnefndarinnar í sínum löndum. Þannig verði Ísland gert að alþjóðlegri fyrirmynd í þessum efnum.

Child Rights Connect eru samtök sem vinna að réttindum barna um allan heim. Samtökin voru stofnuð árið 1983. Þeirra upprunalega hlutverk var að halda utan um skrif Barnasáttmálans sem samþykktur var af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989. Síðan þá hafa samtökin vaxið sem alþjóðleg félagasamtök á heimsvísu. Þau vinna með öðrum félagasamtökum, ríkjum og sérfræðingum að málefnum barna, í nánu samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og Barnaréttarnefndina. Höfuðstöðvar samtakanna eru í Genf.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum