Hoppa yfir valmynd
14. desember 2022 Innviðaráðuneytið

Umbætur á húsnæðismarkaði – endurskoðun húsnæðisstuðnings og húsaleigulaga

Áhrifaríkasta leiðin til að auka húsnæðisöryggi leigjenda er að auka framboð á íbúðum til leigu. Meðan skortur er á íbúðum er hætta á að leigjendur veigri sér við að standa á rétti sínum og leita réttar síns fyrir kærunefnd húsamála. Þá er fyrsta skrefið til að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hækki í samræmi við þróun verðlags. Þetta má lesa úr tveimur skýrslum sem starfshópar á vegum innviðaráðuneytisins hafa birt.

Þá er einnig lagt til að stuðningskerfi verði sameinuð, húsnæðisstuðningur við leigjendur byggist eingöngu á fjárhagslegum skilyrðum, en ekki félagslegum aðstæðum og að leigusamningar verði skráðir opinberlega í leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar svo fá megi betri upplýsingar um leigumarkaðinn. Enn fremur er lagt til að eignamörk í vaxtabótakerfinu verði hækkuð til að styðja við tekjulægri og eignaminni heimili í eigin húsnæði með þunga byrði húsnæðiskostnaðar.

Öðrum starfshópnum var falið að endurskoða húsaleigulög en hinum húsnæðisstuðning og eru skýrslur beggja hópa hér fyrir neðan:

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Ég er sérstaklega ánægður með að breið samstaða skuli hafa náðst um fyrirkomulag húsnæðisstuðnings með þátttöku aðila á vinnumarkaði og stjórnvalda. Það er mikilvægt að sameiginlegur skilningur ríki um verkefnið fram undan og samstaða í hópnum auðveldar þá vinnu. Áfangaskýrsla um endurskoðun á húsaleigulögum er mikilvægt innlegg í vinnu  ríkisstjórnarinnar í málefnum leigjenda. Það ríður á að tryggja öryggi leigjenda og framboð á íbúðum mun þar skipta höfuðmáli eins og fram kemur í skýrslunni.“

Skipað var samtímis í báða starfshópa í júní og hafði hvor sitt hlutverk. Sá er fjallaði um húsnæðisstuðning var gert að endurskoða beinan húsnæðisstuðning í formi húsnæðisbóta, sérstaks húsnæðisstuðnings, vaxtabóta og skattfrjálsrar ráðstöfunar á séreignarsparnaði til öflunar á húsnæði. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum ráðherra, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Kennarasambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins.

Starfshópurinn sem endurskoðar húsaleigulögin hefur skilað áfangaskýrslu. Hann er skipaður fulltrúum ráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Í framhaldi af áfangaskýrslunni mun starfshópurinn halda áfram undirbúningi og vinnu við endurskoðun húsaleigulaga og við starfshópinn munu jafnframt bætast fulltrúar aðila vinnumarkaðarins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira