Hoppa yfir valmynd
15. desember 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Samræmd heilbrigðisþjónusta vegna kynferðisofbeldis

Starfshópur sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fól að móta samræmt verklag um þjónustu við þau sem leita til heilbrigðisstofnana vegna kynferðisofbeldis hefur skilað niðurstöðum sínum. Markmiðið er að tryggja sem jafnast aðgengi þolenda að faglegri heilbrigðisþjónustu í slíkum málum, óháð búsetu, efnahag eða öðrum aðstæðum. Auk tillagna um samræmt verklag og skráningu er lögð til skipulögð fræðsla fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem styður við rétt viðbrögð þess. Þetta getur skipt miklu máli fyrir líðan þolenda og jafnframt ef til málsmeðferðar kemur.

„Skýrsla starfshópsins varpar skýru ljósi á þörfina fyrir að samræma þessa þjónustu á landsvísu. Ég styð heilshugar tillögur hópsins og legg áherslu á að hrinda þeim í framkvæmd hið fyrsta“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. 

Helstu tillögur eru eftirfarandi:

Neyðarmóttakan í Fossvogi verði fyrirmynd samræmds verklags: Á Landspítala í Fossvogi hefur verið starfrækt neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis (NM) frá árinu 1993. Þar liggur fyrir mikil þekking á málaflokknum. Verklag á NM er skýrt, hvort sem litið er til þjónustu, leiðbeininga um skoðun og skráningu upplýsinga, öflunar og varðveislu sakargagna, tilvísana fyrir áfallahjálp og aðkomu lögmanna sem sinna réttargæslu þolenda. 

Starfshópurinn leggur til að innleitt verði á allar heilbrigðisstofnanir verklag að fyrirmynd neyðarmóttökunnar. Þar sem sérfræðiþekking og aðstaða til ítarlegrar skoðunar er ekki fyrir hendi á öllum heilbrigðisstofnunum er gert ráð fyrir að hægt verði að vísa tilteknum, skilgreindum málum til stærri heilbrigðisstofnana sem hafa getu til að sinna þeim. Að öðru leyti, að því marki sem mögulegt er, m.t.t. mannauðs og aðstöðu, verði verklag samræmt verklagi Neyðarmóttökunnar í Fossvogi.

Rafrænt skráningarform: Innleitt verður samræmt skráningarform við skráningu upplýsinga vegna móttöku þolenda og gerenda sem leita á heilbrigðisstofnun vegna kynferðisofbeldis. Innleiðingin hefst á næsta ári og er gert ráð fyrir að samræmt skráningarform verði aðgengilegt á öllum  heilbrigðisstofnunum í landinu að henni lokinni.

Kynferðisofbeldi gegn börnum: Í vinnu starfshópsins kom fram að ekki er fyrir hendi samræmt verklag um heilbrigðisþjónustu við börn, þ.e. einstaklinga yngri en 18 ára, vegna kynferðisofbeldis. Lagt er til að heilbrigðisráðherra stofni starfshóp til að móta samræmt verklag á landsvísu um þjónustu við þennan hóp.

Fræðsluefni og áhersla á þarfir einstaklinga í viðkvæmri stöðu: Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu verður falið að taka saman og miðla fræðsluefni um þjónustu heilbrigðisstofnana um allt land við þolendur kynferðisofbeldis. Við gerð þess skal sérstaklega hugað að einstaklingum í viðkvæmri stöðu s.s. vegna fötlunar, aldurs, uppruna, kynhneigðar, kynvitundar, heimilisleysis eða annara þátta. Þróunarmiðstöðin útbúi jafnframt hagnýtar leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstarfsfólk um móttöku þolenda kynferðisofbeldis.

Auk framangreindra tillagna er í skýrslu starfshópsins fjallað um sálfræðiþjónustu fyrir sakborninga í kynferðisbrotamálum, enda áhrifaríkasta leiðin til að fyrirbyggja ofbeldi að fá þá sem beita því til að láta af hegðun sinni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum