Hoppa yfir valmynd
15. desember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tímabil endurhæfingarlífeyris lengt úr þremur árum í fimm

Alþingi samþykkti í gær frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um lengingu á greiðslutímabili endurhæfingarlífeyris. Um mikilvæga breytingu er að ræða en samkvæmt nýju lögunum mun fólk geta fengið endurhæfingarlífeyri greiddan í allt að fimm ár. Markmiðið er að reyna að draga úr ótímabæru brotthvarfi fólks af vinnumarkaði, fjölga þeim sem snúa aftur til vinnu og fyrirbyggja ótímabæra örorku fólks.

„Með nýju lögunum bætum við réttarstöðu einstaklinga með alvarlegan heilsuvanda, til dæmis ungs fólks með nýlegar geðgreiningar þar sem viðeigandi heilbrigðismeðferð er ekki lokið,“ segir Guðmundur Ingi.

„Með því að tryggja fólki nauðsynlega framfærslu, vonandi eins lengi og nauðsyn ber til, er því gert kleift að ljúka bæði læknisfræðilegri meðferð og starfsendurhæfingu. Þetta skiptir mjög miklu og snertir líf fólks um land allt.“

Alþingi samþykkti einnig í gær frumvarp Guðmundar Inga um hækkun frítekjumarks örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Frítekjumarkið nær tvöfaldast og fer úr tæpum 110.000 kr. á mánuði og upp í 200.000 kr. á mánuði eða 2,4 milljónir króna á ári. Um er að ræða fyrstu hækkun á frítekjumarkinu frá árinu 2009 eða í tæp 14 ár.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum