Hoppa yfir valmynd
15. desember 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Unnið að framtíðarfyrirkomulagi vegvísunar í heilbrigðisþjónustu

Frá fyrsta fundi starfshóps um vegvísun í heilbrigðiskerfinu - myndHeilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skipuleggja fyrirkomulag vegvísunar í heilbrigðiskerfinu til framtíðar. Markmiðið er að tryggja almenningi greiðar og aðgengilegar upplýsingar um hvert leita skuli eftir heilbrigðisþjónustu í samræmi við þörf og aðstæður hvers og eins hverju sinni. Horft er til þess að með samræmdri upplýsingagjöf og aukinni samvinnu þjónustuveitenda megi bæta þjónustu við sjúklinga og dreifa álagi á heilbrigðiskerfið. Fyrsti fundur starfshópsins var í dag.

Í gildi er samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Læknavaktarinnar um heilbrigðisráðgjöf og vegvísun í síma 1770 og gildir sá samningur til ársloka 2023. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins gegnir einnig veigamiklu hlutverki við vegvísun með heilbrigðisráðgjöf í síma 1700, upplýsingavefnum heilsuveru og netspjalli á mínum síðum á þeim sama vef.

Hópurinn mun greina hvernig almenningur nýtir sér þá vegvísun sem nú er fyrir hendi og meta fýsileika þess að auka leiðbeiningar og fræðslu fyrir almenning um þá þjónustu sem er í boði á mismunandi stöðum innan heilbrigðiskerfisins. Jafnframt er hópnum ætlað að meta mögulegan ávinning af nánari samvinnu símsvörunar Neyðarlínu, heilbrigðisráðgjafa og vegvísunar í síma, og netspjalls og upplýsingagjafar á vef heilsuveru.

Meginverkefni hópsins er að setja fram tímasetta áætlun um framtíðarskipulag vegvísunar um heilbrigðisþjónustu þegar að gildandi samningur við Læknavaktina um vegvísun rennur út í lok næsta árs. 

Formaður starfshópsins er Jón Magnús Kristjánsson, skipaður af heilbrigðisráðherra. Aðrir nefndarmenn eru;

 • Salbjörg Á. Bjarnadóttir, tilnefnd af embætti landlæknis
 • Margrét Héðinsdóttir, tilnefnd af Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
 • Runólfur Pálsson, tilnefndur af Landspítala
 • Vignir Bjarnason, tilnefndur af Sjúkratryggingum Íslands
 • Tómas Gíslason, tilnefndur af Neyðarlínunni
 • Elva Björk Ragnarsdóttir, tilnefnd af Læknavaktinni
 • Ingunn Hansdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu
 • Þura Björk Hreinsdóttir, tilnefnd af Landssamtökum heilbrigðisstofnana
 • Gunnlaugur Sigurjónsson, tilnefndur af Samtökum heilbrigðisfyrirtækja
 • Jóhanna Ósk Jensdóttir, tilnefnd af sjálfstætt starfandi heilsugæslum
 • Jón Steinar Jónsson, tilnefndur af Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu
 • Sigríður Dóra Magnúsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili ráðherra niðurstöðum sínum eigi síðar en 30. mars 2023.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum