Hoppa yfir valmynd
20. desember 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kaupsamningur undirritaður fyrir Keldnaland

Bjarni Benediktsson og Davíð Þorláksson undirrituðu samkomulagið að viðstaddri stjórn Betri samgangna, fulltrúum sveitarfélaga og ráðuneytis og starfsmönnum Betri samgangna. - myndMynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
  • Keldnaland verður vel tengt framtíðarhverfi
  • Ábatinn af landinu rennur til samgönguverkefna á höfuðborgarsvæðinu

Ríkissjóður og Betri samgöngur ohf. hafa gengið frá samningi sín á milli um að félagið taki við landsvæðinu við Keldur og Keldnaholt ásamt þeim réttindum og skyldum sem því tengjast. Landið er alls um 116 hektarar eða að svipaðri stærð og miðborg Reykjavíkur að flatarmáli.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, undirrituðu samninginn. Betri samgöngur, sem er félag í eigu ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, munu annast verkefnið í samvinnu við skipulagsyfirvöld með það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika eins og kostur er með hagkvæmu skipulagi og nýtingarhlutfalli sem samræmist áformum um þéttingu byggðar á samgöngu- og þróunarás Borgarlínu.

Ný aðferðafræði við fjármögnun innviða

Um er að ræða einstæðan samning þar sem verðmætt land í eigu ríkisins verður nýtt til að standa undir uppbyggingu á mikilvægum innviðum. Allur ábati af þróun og sölu landsins mun renna óskertur til verkefna samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem undirritaður var árið 2019. Þá er markmiðið að á landinu rísi nýtt og vandað framtíðarhverfi þar sem áhersla verður lögð á vistvænar samgöngur.

Í samgöngusáttmálanum var kveðið á um að allur ábati ríkisins af þróun og sölu Keldnalands, um 85,2 hektarar, rynni til uppbyggingar samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Sú afmörkun var þó ekki endanleg og í kaupsamningnum sem nú hefur verið undirritaður er gert ráð fyrir að því til viðbótar verði landið sem tilheyrir Keldnaholti, alls 30,6 hektarar, einnig framlag ríkisins til verkefnisins. Samtals mun því ábati af 116 hektara landssvæði renna óskertur til verkefnisins um uppbyggingu samganga á höfuðborgarsvæðinu. Með þessu er verkefnið styrkt verulega bæði með tilliti til skipulagslegra og fjárhagslegra markmiða.

Kaupverðið er 15 milljarðar króna, eins og samgöngusáttmálinn mælti fyrir um, og er það greitt með útgáfu nýrra hluta í Betri samgöngum. Ef ábati verkefnisins er umfram 15 ma.kr. munu þeir viðbótar fjármunir einnig renna til verkefnisins.

Vel tengt framtíðarhverfi

Í samgöngusáttmálanum var ákveðið að flýta uppbyggingu framtíðarhverfis að Keldum sem og framkvæmdum við Borgarlínu sem fara á um hverfið endilangt. Þjónusta Borgarlínu er ein helsta forsenda þess að hægt sé að umbreyta Keldum og Keldnaholti í þétta og blandaða byggð með íbúðum, þjónustu og atvinnuhúsnæði. Áætlaður ferðatími með Borgarlínu milli Keldna og Lækjartorgs er um 20 mínútur.

Betri samgöngur hafa í samstarfi við skipulagsyfirvöld unnið að undirbúningi þróunar svæðisins síðan um mitt síðasta ár. Snemma á nýju ári verður farið í alþjóðlega samkeppni um þróunar- og uppbyggingaráætlun fyrir Keldur og Keldnaholt í samvinnu félagsins og Reykjavíkurborgar. Í framhaldinu verður unninn rammahluti Aðalskipulags Reykjavíkur, deiliskipulags- og uppbyggingaráætlanir á grunni verðlaunatillögu í samkeppninni. Stefnt er að því að hægt verði að þróa deiliskipulag fyrir fyrstu uppbyggingarreitina á svæðinu haustið 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum