Hoppa yfir valmynd
20. desember 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þróun starfa og launa hjá hinu opinbera

Starfsfólk heilbrigðis- og menntastofnana myndar um 85% fjölgunar stöðugilda hjá ríkinu frá mars 2019 fram í mars 2022. Fjölgunin var mest hjá Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Háskóla Íslands, en hlutfallsleg fjölgun er mest hjá Vinnumálastofnun, eða 47%. Fjölgunin er að nokkru leyti tímabundin, enda má að miklu leyti rekja hana til kórónuveirufaraldursins.

 

Á Íslandi eru flest opinber störf í velferðar-, mennta- og heilbrigðisgeiranum, en um 2/3 hlutar starfsfólks ríkisins vinna á þessum sviðum. Hjá ríkinu eru um 19 þúsund stöðugildi og um 22 þúsund hjá sveitarfélögunum og hefur opinberum störfum fjölgað nokkuð undanfarin ár, sem er í takti við þróun íbúafjölda í landinu. Fjöldi opinberra starfsmanna hefur staðið í stað sé miðað við fjölda stöðugilda á hverja 1.000 íbúa.

25% af öllum stöðugildum ríkisins hjá Landspítala

Árið 2019 voru stöðugildi hjá ríkinu 17.641. en um þremur árum seinna, í mars 2022, er fjöldinn 19.262. Um mitt ár 2021 tók gildi betri vinnutími í vaktavinnu þar sem fullt stöðugildi vaktavinnufólks breyttist úr 40 klst. vinnuviku í 36 klst. Því fjölgaði stöðugildum í vaktavinnu nokkuð þó vinnumagnið þar að baki hafi ekki breyst. Um 25% stöðugilda hjá ríkinu eru í vaktavinnu.

Fjölgun stöðugilda er helst hjá heilbrigðisstofnunum, en fjölgun í heilbrigðis- og menntastofnunum er 1.385 stöðugildi sem eru líkt og áður segir 85% af fjölguninni frá mars 2019 til mars 2022. Þar af er Landspítali, sem er fjölmennasta stofnun ríkisins, með 4.808 stöðugildi eða 25% af öllum stöðugildum ríkisins. Fjölgun hjá heilbrigðissstofnunum skýrist ekki síst af heimsfaraldri en sem dæmi má nefna að stöðugildum hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fjölgaði um 30% og er það tímabundin fjölgun. Fjölmennasta menntastofnun ríkisins er Háskóli Íslands með um 9% af stöðugildum ríkisins.

Laun hækkað svipað eða minna hjá ríkinu í samanburði við almennan markað

Þegar skoðuð er launaþróun opinbers vinnumarkaðar og hún borin saman við launaþróun milli markaða frá gildistöku Lífskjarasamninga má sjá að hagfelld þróun launa á aðallega við hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Launaþróun ríkisins er hærri en á almennum vinnumarkaði sem nemur 1,3% miðað við júní 2022 en hafa verður í huga að vinnutímastytting hjá ríkinu var metin upp 3,4% inn í launavísitölu en 1,4% á almenna markaðnum og munar um 2%. Því hafa laun, án áhrifa vinnutímastyttingar, hækkað svipað eða minna hjá ríkinu í samanburði við almennan markað.

Launakostnaður hins opinbera skiptist nú nokkurn veginn jafnt milli ríkis og sveitarfélaga. Til lengri tíma litið hefur launakostnaður sveitarfélaga vaxið sem hlutfall af landsframleiðslu en launakostnaður ríkisins hefur aftur á móti almennt lækkað frá því fyrir aldamót í hlutfalli við VLF. Hlutfall launakostnaðar ríkisins af VLF hækkaði þó árið 2020, sem skýrist fyrst og fremst af samdrætti landsframleiðslunnar á því ári vegna heimsfaraldursins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum