Hoppa yfir valmynd
21. desember 2022 Matvælaráðuneytið

Matvælaráðherra afhenti rúmar 47 milljónir til góðra verka í þágu kvenna

f.v. Guðrún Gísladóttir skrifstofustjóri í matvælaráðuneyti, Kristín I Pálsdóttir og Þórunn Sif Böðvarsdóttir frá Rótinni, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, Kristín Ástgeirsdóttir frá menningar- og minningarsjóði kvenna, Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkv.stýra Kvennaathvarfsins, Joanna Ginter og Marion Poilvez frá samtökum erlendra kvenna, Hildur Vala Einarsdóttir frá Stelpur rokka, Guðríður Sigurðardóttir frá menntasjóði mæðrastyrksnefndar og Bahiyeh Alinaghizadeh frá Stelpur rokka. - myndHari

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra afhenti á Kjarvalsstöðum í gær rúmar 47 milljónir króna til Kvennaathvarfsins, Rótarinnar, Menntasjóðs/Mæðrastyrksnefndar, Menningar- og minningarsjóðs kvenna, Sigurhæða, Samtaka kvenna af erlendum uppruna og samtakanna Stelpur Rokka.

Slík málefni eru alla jafna utan verkefnasviðs matvælaráðuneytisins en ráðuneytið hefur haft umsjá með líknarsjóði Sigríðar Melsteð sem stofnaður var 1914 og hefur verið í umsjá nokkurra ráðuneyta í frá stofnun sjóðsins árið 1914.

Skömmu eftir að matvælaráðuneytið var sett á laggirnar var ákveðið að slíta sjóðnum þar sem ekki var til handbært fé til úthlutunar í sjóðnum og ekki hafði verið úthlutað úr honum til langs tíma. Með slitum sjóðsins og sölu jarðarinnar Keldnakots sem var hluti af stofnfé sjóðsins gafst tækifæri til að úthluta til samtaka hverra starfsemi samræmist markmiðum sjóðsins.

Orðalag skipulagsskrár sjóðsins ber keim af tíðaranda síns tíma en þar segir m.a.: „Líknarsjóður þessi skal vera handa ógiftum, heilsuveikum og bágstöddum konum, einkum þeim sem aldar hafa verið upp á góðum og siðprúðum heimilum, og eru siðprúðar.“

Stofnandi sjóðsins og sá sem gaf jörðina Keldnakot var Bogi Th. Melsteð, sagnfræðingur, alþingismaður, höfundur bóka um sögu Íslands og forgöngumaður um stofnun Hins íslenska fræðafélags. Bogi var einnig aðstoðarmaður í ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn 1893–1903 og síðar styrkþegi Árnasafns í rúmlega 20 ár. Sjóðinn stofnaði Bogi í nafni frænku sinnar, Sigríðar Melsteð en þau voru bræðrabörn.

Það segir einnig nokkuð um tíðarandann að lítið sem ekkert er að finna af heimildum um Sigríði en þess meira af heimildum um Boga og föður Sigríðar, Pál Melsteð, alþingismann og sýslumann. Páll stofnaði einnig Kvennaskólann í Reykjavík ásamt konu sinni Þóru Melsteð.

Ljóst er að Boga var mikið í mun að halda minningu frænku sinnar á lofti en í stofnskrá segir að auki: „Sjóður þessi skal bera nafn frændkonu minnar Sigríðar Melsteð og heita „Líknarsjóður Sigríðar Melsteð“. Nafni þessu má aldrei breyta.“ Einnig stóð vilji Boga til að reist yrði heimili fyrir konur á Suðurlandi, „…að reisa vandað steinhús og heimili handa ógiftum heilsuveikum, bágstöddum konum þó eigi svo veikar að þær eigi heima á geðveikraheimili.“ Skyldi heimilið bera nafn Sigríðar Melsteð (Líknarheimili Sigríðar Melsteð) og vera á Suðurlandi, ekki „…austar en í Árnessýslu, og eigi vestar eða norðar en í Stafholtstungum í Mýrasýslu“ þar sem hægt væri um aðflutninga og var Keldnakot nefnt til sögunnar sem hugsanleg staðsetning.

Við úthlutun styrkja var tekið mið af þessu ákvæði, en þau samtök sem hljóta styrk eru staðsett á tilgreindu svæði. Einnig voru grundvallargildi sjóðsins höfð til hliðsjónar og aðlöguð að samtímanum þegar kom að úthlutun.

„Það er einstaklega ánægjulegt að sjóður sem var stofnaður af svo göfugri hugsjón fyrir 108 árum skuli gera okkur kleift, nú á aðventunni, að styrkja samtök sem starfa í þágu þeirra málefna sem lágu til grundvallar við stofnun líknarsjóðs Sigríðar Melsteð“ sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra við úthlutun.

Þau samtök sem fengu úthlutun eru:

  • Kvennaathvarfið, 19.021.825 kr

  • Rótin, 7.650.000 kr

  • Menntasjóður - Mæðrastyrksnefnd, 7.650.000 kr

  • Menningar og minningarsjóður kvenna, 7.650.000 kr

  • Sigurhæðir, 2.000.000 kr

  • Samtök kvenna af erlendum uppruna, 2.000.000 kr

  • Stelpur Rokka, 2.000.000 kr



  • Matvælaráðherra afhenti rúmar 47 milljónir til góðra verka í þágu kvenna - mynd úr myndasafni númer 1
  • Matvælaráðherra afhenti rúmar 47 milljónir til góðra verka í þágu kvenna - mynd úr myndasafni númer 2
  • Matvælaráðherra afhenti rúmar 47 milljónir til góðra verka í þágu kvenna - mynd úr myndasafni númer 3
  • Matvælaráðherra afhenti rúmar 47 milljónir til góðra verka í þágu kvenna - mynd úr myndasafni númer 4
  • Matvælaráðherra afhenti rúmar 47 milljónir til góðra verka í þágu kvenna - mynd úr myndasafni númer 5
  • Matvælaráðherra afhenti rúmar 47 milljónir til góðra verka í þágu kvenna - mynd úr myndasafni númer 6
  • Matvælaráðherra afhenti rúmar 47 milljónir til góðra verka í þágu kvenna - mynd úr myndasafni númer 7
  • Matvælaráðherra afhenti rúmar 47 milljónir til góðra verka í þágu kvenna - mynd úr myndasafni númer 8
  • Matvælaráðherra afhenti rúmar 47 milljónir til góðra verka í þágu kvenna - mynd úr myndasafni númer 9
  • Matvælaráðherra afhenti rúmar 47 milljónir til góðra verka í þágu kvenna - mynd úr myndasafni númer 10

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum