Hoppa yfir valmynd
21. desember 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Tæpum 330 milljónum króna varið til tækjakaupa vegna bráðaþjónustu

Tæpum 330 milljónum króna varið til tækjakaupa vegna bráðaþjónustu - myndHeilbrigðisráðuneytið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að verja 215 milljónum kr. af fjárlögum næsta árs til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilsugæslustöðum um allt land. Úthlutunin kemur til viðbótar tæpum 114 milljónum kr. sem úthlutað var til heilbrigðisstofnana fyrr á þessu ári vegna bráðaþjónustu á sjúkrahúsum. Markmiðið er að halda áfram að jafna aðgengi að bráðaþjónustu um allt land og gera heilbrigðisstofnunum betur kleift að veita þessa mikilvægu þjónustu á starfssvæðum sínum. Ákvörðunin er byggð á tillögum viðbragðsteymis um bráðaþjónustu.

„Það er öryggismál og einnig réttlætismál að bæta og jafna aðgengi að bráðaþjónustu um allt land eins og kostur er. Liður í því er að tryggja að sá tækjabúnaður sem nauðsynlegur er samkvæmt faglegu mati, sé fyrir hendi á öllum starfsstöðvum heilbrigðisstofnana í heilbrigðisumdæmum landsins“ segir Willum.

Viðbragðsteymi um bráðaþjónustu hefur um skeið unnið að tillögum um breytingar og umbætur í bráðaþjónustu í landinu með áherslu á að bæta þjónustu, minnka sóun og auka árangur. Megináhersla hefur verið lögð á móttöku bráðatilvika í heilbrigðiskerfinu, svo sem á slysamóttökum heilsugæslustöðva, bráðamóttökum, auk annarrar vaktþjónustu.

Nokkur munur er á því hvernig starfsstöðvar heilbrigðisstofnana í heilbrigðisumdæmum landsins eru tækjum búnar til að sinna bráðaþjónustu. Viðbragðsteymið skilgreindi hvaða búnaður þarf að vera fyrir hendi að lágmarki vegna bráðaþjónustu á sjúkrahúsum heilbrigðisstofnana og á heilsugæslustöðvum. Á grundvelli þess hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að veita 215 milljónir króna sem tryggja búnaðarakaup fyrir heilsugæslustöðvar í samræmi við þarfagreiningu viðbragðsteymisins, til viðbótar við fyrri úthlutun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum