Hoppa yfir valmynd
29. desember 2022 Utanríkisráðuneytið

Gildistaka samninga um afmörkun landgrunnsins í Síldarsmugunni

Tveir samningar um afmörkun landgrunnsins í Síldarsmugunni svonefndu öðluðust gildi fyrr í þessum mánuði. Samningarnir eru annars vegar við Noreg og við Danmörku fyrir hönd Færeyja hins vegar og taka til landgrunnsins handan 200 mílna lögsögumarkanna milli Færeyja, Íslands, meginlands Noregs og Jan Mayen.

Fyrrnefndi samningurinn öðlaðist gildi 13. desember en sá síðari daginn eftir, þann 14. desember. Samsvarandi samningur milli Noregs og Danmerkur og Færeyja öðlaðist jafnframt gildi í mánuðinum.

Samningarnir voru undirritaðir á fundi utanríkisráðherra Íslands, Danmerkur, Færeyja og Noregs í Stokkhólmi 30. október 2019 og varða suðurhluta þess svæðis sem liggur á milli efnahagslögsögu landanna og er í daglegu tali nefnt Síldarsmugan.

Samningarnir hafa legið fyrir um nokkurt skeið og eru í samræmi við greinargerðir ríkjanna til Landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem samþykkti kröfur ríkjanna, síðast Íslands árið 2016.

Samningarnir eru til marks um gott samstarf milli þjóðanna og koma til með að auka skýrleika og fyrirsjáanleika með tilliti til framtíðarnýtingar auðlinda sem finnast á landgrunninu en varða ekki veiðiréttindi eða hafið að öðru leyti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum