Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fléttan: Kara Connect byggir upp velferðartorg starfsmanna Landspítalans

Kara Connect ehf., í samstarfi við Landspítala háskólasjúkrahús (LSH), hlýtur styrk að upphæð 9 m.kr. til uppbyggingar velferðartorgs fyrir starfsmenn LSH. Velferðartorgið er örugg vefgátt þar sem allt starfsfólk spítalans hefur aðgang að stuðningi sérfræðinga í trúnaði en fram undan er að innleiða frekari þjónustu, tengingar og virkni sem eykur gæði verkefnisins, tryggir jafnræði og getur stutt fleiri stofnanir eða fyrirtæki.  

Markmið verkefnisins er að greiða aðgengi heilbrigðisstarfsfólks að stuðningi þar sem fyllsta trúnaðar og jafnræðis er gætt. Áætlað er að innan sex mánaða verði sérfræðingar til staðar sem geta sinnt stuðningi við starfsfólk af þremur stærstu þjóðernum vinnustaðarins ásamt því að ópersónugreinanleg tölfræði verði greind til að styðja við aðrar mælingar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að heilbrigðisstarfsfólk er líklegast af öllum starfsstéttum til að lenda í kulnun og því hefur mannauðsdeild LSH og Kara Connect sett sérsniðið velferðartorg LSH í loftið þar sem starfsmenn geta valið að bóka tíma með sérfræðingi í gegnum Köru Connect. 

Starfsfólk LSH getur þannig á einfaldan hátt og í trúnaði, að heiman eða i vinnu, skoðað ólíka sérfræðihjálp á aðgengilegri vefsíðu og bókað tíma en engar persónugreinanlegar upplýsingar berast til LSH. Þá munu upplýsingar um notkun og spurn eftir ákveðnum tegundum sérfræðinga (t.d. næringarfræðingi eða sálfræðingi) gefa skýrt til kynna hvað þarf að styðja betur við til að auka bæði andlega og líkamlega heilsu heilbrigðisstarfsfólks. Leiða má líkur að því að innleiðing Velferðartorgs LSH bæti stöðugleika og minnki áhyggjur og kvíða sem síðan hefur bein áhrif á líðan í starfi og afköst.  

Kara Connect er íslenskt heilbrigðistæknifyrirtæki sem hefur um árabil byggt upp örugga vinnustöð fyrir sérfræðinga. Hugbúnaður fyrirtækisins er byggður upp af sérfræðingum og með sérfræðingum í velferðar- og heilbrigðisþjónustu og er með leyfi Landlæknis til að starfa sem öruggur fjarheilbrigðisbúnaður og upplýsingatæknikerfi. Kara Connect var stofnað árið 2015 af Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, ásamt meðstofnendum, með það að markmiði að auka aðgengi að hjálp. Stærsti hópur notenda fyrirtækisins eru sérfræðingar af ýmsu tagi, t.d. sálfræðingar, talmeinafræðingar, næringarráðgjafar, sérfræðilæknar, svefnráðgjafar, sjúkraþjálfarar o.fl.

Átta verkefnum hefur verið boðið að ganga til samninga um styrki úr Fléttunni. Fléttan eru styrkir sem veittir eru til nýsköpunarfyrirtækja sem skapað hafa áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni kerfisins almennt. Áhersla var lögð á að úthluta styrkjum sem styðja við innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðistækni, -vörum og -þjónustu. Styrkveiting er háð því skilyrði að umsækjendur eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kynnir verkefnin átta sem hlotið hafa styrk úr Fléttunni á vef sínum næstu daga.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira