Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fléttan: Fleygiferð innleiðir Leviosa á Reykjalundi

Fleygiferð ehf. (Leviosa), í samstarfi við Reykjalund, hlýtur styrk að upphæð 9 m.kr. Fleygiferð er nýsköpunarfyrirtæki sem stofnað var árið 2019 af Davíð B. Þórissyni, sérfræðingi í bráðalækningum, og Matthíasi Leifssyni, hag- og fjármálafræðingi. 

Verkefnið snýr að innleiðingu hugbúnaðarlausnarinnar Leviosa á Reykjalundi en kerfið einfaldar gerð meðferðaáætlana, skráningu sjúklinga og meðferðaraðila í viðtöl og meðferðir ásamt eftirfylgni. Að auki er áætlað að tími sem heilbrigðisstarfsfólk eyðir í úrvinnslu í tölvum minnki um 50% með innleiðingu kerfisins þar sem Leviosa býður upp stóraukna skilvirkni og sjálfvirkni. Kerfið mun koma í stað núverandi tímabókunarkerfis Reykjalundar og einnig leysa af hólmi skráningarviðmót annars sjúkraskrárkerfis sem er orðið úrelt og skortir alla sjálfvirkni. 

Markmið Leviosa hugbúnaðarkerfisins, sem þróað hefur verið í nánu samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk, er að hámarka þann tíma sem heilbrigðisstarfsfólk ver í að veita sjúklingum meðferða og lágmarka samhliða því tíma sem eytt er í skriffinnsku og skráningar. Áætlað er að innleiðing kerfisins á Reykjalundi geri heilbrigðisstarfsfólki kleift að veita ítarlegri og persónulegri þjónustu til sjúklinga ásamt aukinni skilvirkni í rekstri.

Átta verkefnum hefur verið boðið að ganga til samninga um styrki úr Fléttunni. Fléttan eru styrkir sem veittir eru til nýsköpunarfyrirtækja sem skapað hafa áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni kerfisins almennt. Áhersla var lögð á að úthluta styrkjum sem styðja við innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðistækni, -vörum og -þjónustu. Styrkveiting er háð því skilyrði að umsækjendur eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kynnir verkefnin átta sem hlotið hafa styrk úr Fléttunni á vef sínum næstu daga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira