Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Fyrirhuguð útgáfa nafnskírteina komin í Samráðsgátt

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram í Samráðsgátt drög að frumvarpi um útgáfu nýrra handhægra nafnskírteina. Skírteinin munu teljast örugg persónuskilríki til auðkenningar og jafnframt gild ferðaskilríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

Útgáfa nýju skilríkjanna er þáttur í að tryggja þeim, sem þess óska, lögleg skilríki og að útgáfa öruggra persónuskilríkja sé í samræmi við evrópskar reglur. Lögunum er ætlað að vera tæknilega hlutlausum og er gert ráð fyrir að stafræn skilríki geti verið gefin út á grundvelli laganna þegar fram líða stundir. Samkvæmt drögunum er því ráðgert að ráðherra setji reglugerð um form og efni nafnskírteina til að tryggja að þau uppfylli alþjóðlega staðla á hverjum tíma. Í því skyni verður til að mynda lögfest heimild fyrir ráðherra að ákveða að andlitsmynd og fingraför fylgi umsókn um nafnskírteini.

Skilyrði fyrir útgáfu nafnskírteinis er að umsækjandi sé íslenskur ríkisborgari. Gefin verði út nafnskírteini bæði með og án ferðaréttinda og þannig tryggt að allir íslenskir ríkisborgarar geti fengið örugg persónuskilríki, jafnvel þótt þeir uppfylli ekki skilyrði laganna til að fá útgefin nafnskírteini sem eru einnig gild ferðaskilríki.

Samkvæmt frumvarpinu ber Þjóðskrá Íslands áfram ábyrgð á útgáfu nafnskírteina enda er þar fyrir hendi reynsla og tækjabúnaður til að annast skilríkjaútgáfu. Lagt er til að Þjóðskrá Íslands fái heimild til að halda sérstaka nafnskírteinaskrá þar sem skráðar eru og varðveittar upplýsingar sem hefur verið safnað til útgáfu nafnskírteina, þ.m.t. andlitsmynd og fingraför, og aðrar upplýsingar um skírteinin. Einnig er lagt til að Þjóðskrá Íslands haldi sérstaka skrá sem almenningur getur flett upp í til að staðreyna gildi nafnskírteina við notkun þeirra.

Drögin að frumvarpinu verða í Samráðsgátt til 31. janúar 2023 og er öllum frjálst að gera athugasemdir eða koma með ábendingar við drögin.

Drög að frumvarpi um nafnskírteini í samráðsgátt stjórnvalda

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira