Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Endurreisn foreldrastarfs í þágu farsældar barna

Þorvar Hafsteinsson, formaður Heimilis og skóla, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra - mynd

Samtökin Heimili og skóli hljóta sérstakan fjárhagslegan stuðning á þessu ári frá stjórnvöldum til að efla foreldrastarf í þágu farsældar barna. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði samning þess efnis í dag.

„Merki eru um að dregið hafi verulega úr virku samstarfi heimila og skóla um allt land á undanförnum árum,“ segir Ásmundur Einar. „Sporna þarf við þessari þróun og efla og þróa þetta mikilvæga starf um land allt á öllum skólastigum í kjölfar heimsfaraldurs. Virk þátttaka foreldra frá upphafi leikskóla og stuðningur þeirra er lykilþáttur í forvörnum, mótun á jákvæðum skólabrag og í að takast á við áskoranir sem tengjast skólagöngu og frístundum barna frá öllum hliðum. Miklar vonir eru bundnar við að þessi stuðningur við Heimili og skóla nýtist til að endurreisa og efla foreldrastarf í samstarfi við alla helstu lykilaðila skólasamfélagsins.“

Markmið samningsins er að

  • stuðla að endurreisn og eflingu foreldrastarfs um allt land á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi með því að virkja foreldra, veita þeim stuðning og ráðgjöf og gefa þeim hlutverk og verkfæri til að vera virkir þátttakendur í öflugu samstarfi við skóla, aðra foreldra og sveitarfélögin.
  • fjármagna fræðslu- og samráðsverkefni styrkþega, m.a. mótun og innleiðingu á farsældarsáttmála um land allt í samvinnu við ýmsa aðila.
  • stuðla að virku og víðtæku samtali við foreldra þar sem áhersla verður lögð á að mæta öllum foreldrum óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Samhliða því verður leitað leiða til að styðja sérstaklega við foreldra af erlendum uppruna, foreldra barna með annað móðurmál en íslensku og foreldra barna í viðkvæmri stöðu.
  • styðja við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
  • efla og auglýsa símaráðgjöf fyrir foreldra.

Samningurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, innleiðingu menntastefnu til 2030 og Barnvæns Íslands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira