Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fréttaannáll umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Árið 2022 var viðburðaríkt í starfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og gefur meðfylgjandi annáll gott yfirlit í máli og myndum yfir fjölbreytt verkefni og starfsemi ráðuneytisins á liðnu ári.

Á meðal þeirra viðburða sem settu svip sinn á árið má nefna að þingsályktun um þriðja áfanga rammaáætlunar var samþykkt af Alþingi í júní, en níu ár voru þá liðin frá því að vinna við áfangann hófst. Í lok árs var svo nýtt skipurit ráðuneytisins kynnt.

Einnig má nefna að í marsmánuði kynnti ráðherra skýrslu um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum með vísan til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum og á haustdögum skilaði starfshópur um þjóðgarða og önnur friðlýst svæði ráðherra niðurstöðum sínum.

Styrkveitingar Orkusjóðs hafa aldrei verið hærri en árið 2022, en þær numu 1,1 milljarði króna og þá var tæplega þremur milljörðum króna veitt til innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum.

Stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir Vatnajökulsþjóðgarð og Geysissvæðið voru enn fremur samþykktar á árinu og loks var formlegt aðsetur Vatnajökulsþjóðgarðs flutt til Hafnar í Hornafirði.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið óskar landsmönnum öllum farsældar á nýju ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum