Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Efnahagssamráð Íslands og Bandaríkjanna

Efnahagssamráð Íslands og Bandaríkjanna fór fram í utanríkisráðuneytinu í dag. Þetta er í fjórða skipti sem árlegt samráð ríkjanna á sviði efnahagsmála er haldið en það var formlega sett á fót árið 2019. Samráðið hefur reynst mikilvægur vettvangur til að taka upp mál sem varða hagsmuni Íslands og vekja athygli á hindrunum í vegi fyrirtækja og fjárfesta ásamt því að vera góður vettvangur til að skiptast á upplýsingum, skilgreina sameiginlega hagsmuni og efla enn frekar tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna á sviði viðskipta- og efnahagsmála.  

Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, leiddi fundinn af hálfu Íslands en Whitney Baird, yfirmaður deildar á sviði efnahags- og viðskiptamála í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, fór fyrir bandarísku sendinefndinni. 

Á fundinum ræddu fulltrúar ríkjanna meðal annars samstarfstækifæri á sviði nýsköpunar og grænna orku- og loftslagslausna og eftirfylgni ráðstefnu á því sviði sem haldin var í Washington D.C. á síðasta ári þar sem fulltrúar stjórnvalda og einkageirans á sviði orku- og loftslagsmála frá Íslandi og Bandaríkjunum tóku þátt. 

Þá voru viðskipti ríkjanna almennt og einstök tvíhliða hagsmunamál til umræðu ásamt sameiginlegum hnattrænum áskorunum á viðskiptasviðinu, svo sem aukið fjárfestingaöryggi, mikilvægi traustra aðfangakeðja, verndun mikilvægra innviða, netöryggismál, orkuöryggismál og jafnréttismál.  

Fulltrúar Íslands og Bandaríkjanna undirstrikuðu samstöðu ríkjanna þegar kemur að fordæmingu innrásar Rússa í Úkraínu og hétu áframhaldandi stuðningi við efnahags- og refsiaðgerðir gegn rússneskum stjórnvöldum og tengdum aðilum ásamt áframhaldandi mannúðar- og efnahagsstuðningi við Úkraínu.   

Frá Íslandi sátu fundinn fulltrúar utanríkisráðuneytis, sendiráðsins í Washington, aðalaræðisskrifstofu Íslands í New York, Íslandsstofu/Grænvangs, Orkustofnun og Ísor. Frá Bandaríkjunum tóku þátt fulltrúar stjórnvalda frá utanríkis-, viðskipta- og fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna auk bandaríska sendiráðsins í Reykjavík. 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum