Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vel gengur að fjölga kennurum

Útskrifaðir kennarar úr háskólum á Íslandi 2015–2022 - mynd

Í dag er alþjóðlegur dagur menntunar. Án kennara getur menntun ekki átt sér stað og varð skortur á kennurum til þess að stjórnvöld settu af stað fimm ára átaksverkefni um nýliðun kennara vorið 2019. Útskrifuðum kennurum hefur fjölgað umtalsvert frá því að átaksverkefnið hófst. Á síðasta ári útskrifuðust 454 kennarar frá þeim háskólum sem bjóða upp á kennaranám hér á landi. Það er 160% aukning miðað við meðaltal áranna 2015–2019.

Vorið 2019 var sett af stað fimm ára átaksverkefni stjórnvalda um nýliðun kennara. Markmið þess er að fjölga kennurum á öllum skólastigum og auka gæði náms og kennslu í íslensku skólakerfi með farsæld nemenda að leiðarljósi. Frá því að átaksverkefnið hófst fyrir rúmum þremur árum hefur rík áhersla verið lögð á að fjölga þeim sem velja kennaranám og auka skilvirkni námsins svo kennaranemar útskrifist á tilsettum tíma. Á þeim tíma hefur aðsókn í kennaranám farið fram úr björtustu vonum og brautskráningum fjölgað samhliða.

Lögð hefur verið áhersla á að kennaranemar fái faglega þekkingu og reynslu af skólastarfi meðan á námi stendur með 50% launuðu starfsnámi á lokaári námsins. Þannig njóta þeir faglegrar leiðsagnar frá reyndum kennurum á vettvangi. Samhliða þessari áherslu hafa reynslumiklir kennarar verið hvattir til að afla sér sérhæfingar í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf.

Kennaranemum stendur til boða að sækja um hvatningarstyrk úr sérstökum Nýliðunarsjóði sem nemur allt að 800.000kr. að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Með þessum hætti leggja stjórnvöld áherslu á að nemendur helgi sig náminu, ljúki því á tilsettum tíma og hefji störf við kennslu að því loknu. Enn fremur hefur starfandi kennurum sem sérhæfa sig í starfstengdri leiðsögn gefist kostur á að sækja um hvatningarstyrk sem nemur allt að 150.000kr. vegna viðbótarnáms með áherslu á starfstengda leiðsögn og kennsluráðgjöf.

Aðsókn í kennaranám

Frá því að átaksverkefnið var kynnt til sögunnar af þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra hefur aðsókn í kennaranám aukist umtalsvert. Boðið er upp á kennaranám við fjóra háskóla hér á landi, Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri bjóða upp á fjölbreyttar námsleiðir í kennaranámi á bæði grunn- og meistarastigi sem leiðir til kennsluréttinda. Við Háskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands er boðið upp á kennaranám á meistarastigi, annars vegar íþróttakennaranám við HR og hins vegar nám í listkennslu eða almennri kennslu við Listaháskólann. Auk þess bjóða háskólar upp á svokölluð Menntafléttunámskeið ætluð kennurum, starfsfólki á vettvangi frítímans og fagfólki sem starfar við menntun. Fjöldi umsókna í kennaranám varpar ljósi á áhuga á kennaranámi, hvernig til hefur tekist að kveikja áhuga á kennarastarfinu og mikilvægi þess.

Áður en átaksverkefnið hófst hafði aðsókn í kennaranám dregist saman og við blasti vaxandi kennaraskortur. Árið 2018 sóttu 855 um inngöngu í kennaranám, árið 2019 voru umsóknir tæplega 1.300 en árið 2020 virðist hafa verið metár þegar fjöldi umsókna fór í ríflega 1.700. Draga má þá ályktun að nokkrir samverkandi þættir hafi haft þar áhrif, svo sem sameiginlegt markaðsátak ráðuneytis, háskólanna, sambandsins og KÍ, undir hatti Komdu að kenna, breytingar á kennaranámi í kjölfar nýrra kennaralaga, framlengdan umsóknarfrest háskóla vorið 2020 og áhersla á inntöku nýnema í janúar 2021 sem lið í mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19.

Fjöldi útskrifaðra kennara og þróun frá 2015

Einn þeirra mælikvarða sem varpar ljósi á árangur aðgerða er fjöldi brautskráðra kennara ár hvert. Eftirfarandi mynd sýnir fjölgun útskrifaðra kennara frá því að átaksverkefnið hófst en þegar horft er á fjölda brautskráðra kennara í ár borið saman við meðaltalið frá 2015 til 2019, þá er aukningin 160%.

 

Útskrifaðir kennarar úr háskólum á Íslandi 2015–2022

Launað starfsnám

Einn liður í átaki stjórnvalda til að fjölga kennurum er 50% launað starfsnám kennaranema á lokaári. Aðgerðin tók gildi haustið 2019 þegar kennaranemum gafst kostur á að velja 50% launað starfsnám við leik- eða grunnskóla sem hluta af lokaári í námi. Markmið launaðs starfsnáms er einkum að byggja upp þekkingu og hæfni kennaranema til að takast á við áskoranir kennarastarfsins að námi loknu með markvissum stuðningi reyndra leiðsagnarkennara sem dregið getur úr brotthvarfi þeirra fyrstu árin í starfi.

Fjöldi starfandi leiðbeinenda (sem ekki hafa kennsluréttindi) hefur dregist saman samhliða auknum fjölda útskrifaðra kennara en sá mælikvarði gefur til kynna hvernig gengur að ráða í lausar kennarastöður. Þróunin hefur því verið í samræmi við markmið stjórnvalda en með þessum hætti er tryggt að við skóla landsins starfi kennarar með djúpa þekkingu á sínu fagi og góða reynslu sem styður við gæði náms og kennslu.

Ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda

Með tilkomu nýrra laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla var lögfest ný námsgráða í kennaranámi, svo kölluð MT-gráða (e. Master of Teaching). Meistaranám sem lýkur með MT-gráðu felur ekki í sér 30 ECTS-eininga rannsóknarverkefni líkt og í M.Ed.-námi heldur ljúka kennaranemar hagnýtum námskeiðum í stað rannsóknarverkefnis. Kennaranemar hafa með tilkomu nýrra kennaralaga þannig val milli MT-námsleiðar og M.Ed.-námsleiðar.

Þessi breyting hefur haft þau áhrif að fjöldi fyrrum kennaranema sem lokið hafði stórum hluta af kennaranámi sínu eða átti aðeins eftir að ljúka við rannsóknarverkefni, hefur endurinnritast í kennaranám til að útskrifast með MT-gráðu.

Til viðbótar má nefna nýmæli í kennaralögum sem kveða á um að skólastjórnendur þurfa ekki að sækja um undanþágu vegna ráðningar kennaranema, heldur aðeins tilkynna um ráðninguna til Menntamálastofnunar. Lausar kennarastöður þarf þó að auglýsa en ef enginn kennari sækir um hefur verið liðkað fyrir ráðningu kennaranema, auk þess sem heimilt er að ráða viðkomandi til tveggja ára.

Sameiginlegt átak

Átaksverkefnið er unnið í samstarfi mennta- og barnamálaráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Listaháskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Kennarasambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og kennaranema.

Með því að leggjast á eitt hefur náðst mikill árangur við að auka aðsókn í kennaranám og að fjölga útskrifuðum kennurum, enda verkefnið brýnt. Auk fjölgunar kennara þarf einnig að stuðla að því að nýútskrifaðir kennarar ráði sig til kennslu að námi loknu og hverfi ekki á brott á fyrstu 3–5 árum í starfi. Þar skiptir leiðsögn við nýliða, starfsumhverfið og tækifæri kennara til þess að vaxa og þróast í starfi miklu máli.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira