Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Í tilefni af skýrslu Rauða krossins um „stöðu fólks í umborinni dvöl á Íslandi“

Dómsmálaráðuneytið hefur margvíslegar athugasemdir við efni og framsetningu skýrslu Rauða krossins (RKÍ). Í skýrslunni er fjallað um aðstæður hóps einstaklinga, einkum frá Írak og Nígeríu, sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og ekki hefur tekist að vísa úr landi. Hér eru helstu athugasemdir ráðuneytisins.

Ólögmæt dvöl – ekki „umborin dvöl“

Ranglega er fullyrt í skýrslu RKÍ að sá tilgreindi hópur, sem fjallað er um í skýrslunni, sé í „umborinni dvöl“ á Íslandi (e. tolerated stay). Þegar útlendingur kemur hingað til lands og sækir um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi telst viðkomandi jafnan í „umborinni dvöl“ á meðan mál hans er til meðferðar. Einstaklingur sem hlotið hefur synjun á umsókn en neitar að yfirgefa landið er aftur á móti í ólögmætri dvöl, enda hefur viðkomandi ekki leyfi til að dveljast hér og ber lögum samkvæmt að yfirgefa landið. Röng notkun hugtaksins af hálfu RKÍ í þessari skýrslu gefur villandi til kynna að dvöl umræddra útlendinga hér á landi sé að einhverju leyti lögleg eða í „hálfgerðu lagalegu tómarúmi“, en svo er alls ekki.

Skýrslan horfir ekki til málsmeðferðar stjórnvalda á tveimur stjórnsýslustigum

Við gerð skýrslu RKÍ var ekki horft til, eða tillit tekið til, málsmeðferðar stjórnvalda vegna umsóknar viðkomandi útlendinga um alþjóðlega vernd. Allir viðmælendur RKÍ eiga það sammerkt að hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi en fengið synjun hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Við meðferð málsins njóta umsækjendur aðstoðar lögfræðings. Þannig hafa stjórnvöld tekið afstöðu til þess að viðkomandi einstaklingum er óhætt að snúa aftur til síns heima. Niðurstöður stjórnvalda eru jafnan ítarlega rökstuddar og byggja bæði á almennu mati á aðstæðum í heimaríki sem og einstaklingsbundnu mati vegna hvers og eins umsækjanda. Þeir útlendingar, sem fá endanlega synjun á stjórnsýslustigi á umsókn um alþjóðlega vernd, geta síðan skotið úrlausninni til dómstóla.

Tillögur RKÍ í skýrslunni, sem eiga að koma til móts við þessa einstaklinga, virða þannig að vettugi málsmeðferð stjórnvalda og þá niðurstöðu að útlendingarnir hafa ekki rétt til dvalar hér á landi og ber lögum samkvæmt að yfirgefa landið.

Á valdi einstaklinganna að höggva á þennan hnút með sjálfviljugri heimför

Skýrsla RKÍ gengur út frá þeirri forsendu að fólkið sé hér á landi í réttaróvissu, eða í „hálfgerðu lagalegu tómarúmi“, þar sem íslensk stjórnvöld geti ekki framkvæmt brottflutning þeirra úr landi. Skýrslan skautar þannig að miklu leyti fram hjá þeirri mikilvægu staðreynd að í nær öllum tilvikum geta umræddir útlendingar farið sjálfviljugir til síns heimaríkis. Við sjálfviljuga heimför getur útlendingur fengið margvíslega aðstoð frá íslenskum stjórnvöldum, svo sem með greiðslu fargjalds og farareyri. Þá geta styrkir til enduraðlögunar í heimaríki numið allt að 3.000 evrum (um 460.000 kr.) til hvers einstaklings. Áréttað er að afstaða viðkomandi útlendings til þess að honum sé ekki fært að snúa sjálfviljugur aftur er ekki í samræmi við niðurstöðu stjórnvalda og hefur ekki þýðingu hvað varðar lagalegu stöðu þeirra hér á landi.

Ekki íslensk stjórnvöld sem standa í vegi fyrir öflun ferðaskilríkja

Í skýrslunni er vísað í miklar hindranir eða jafnvel að það sé ómögulegt fyrir þennan hóp að afla sér fullnægjandi skilríkja. Ekki fáist ferðaheimildir frá íslenskum stjórnvöldum í þeim tilgangi að ferðast til ríkja þar sem sendiráð heimaríkja þeirra séu staðsett. Í þessu felst mótsögn því fullnægjandi ferðaskilríki eru forsenda þess að flutningur í fylgd lögreglu til viðtöku- eða heimaríkis geti fari fram. Helsta ástæða þess að flutningi verði ekki viðkomið er skortur á samstarfsvilja útlendings við að útvega ferðaskilríki. Ef samstarfsvilji er fyrir hendi er því jafnan engin fyrirstaða við að fá útgefin ferðaskilríki.

Ríkisfang barna viðmælenda sem fæðast hér á landi

Í skýrslu RKÍ er vísað til þess að börn þessa hóps, sem fæðst hafa hér á landi, séu með „óskilgreint ríkisfang“ og glími þ.a.l. við ríkisfangsleysi. Í framkvæmd eru þessi börn skráð með sama ríkisfang og foreldrar þeirra. Þá er almennt ekkert því til fyrirstöðu fyrir umrædda foreldra að fá útgefin skilríki frá heimaríki fyrir börn sín, eftir atvikum með aðstoð íslenskra stjórnvalda. Til þess þurfa þeir þó að leitast eftir því.

Ekki í boði að „leyfa þeim bara að vera“

Alþjóðlegt verndarkerfi er til þess ætlað að vernda þá sem eiga á hættu ofsóknir, pyndingar eða dauða. Fleiri sækja um slíka vernd en eiga rétt á og því verða alltaf einhverjir sem fá neitun og er vísað frá landinu. Ef hægt er að hafa alla stjórnsýslumeðferð yfirvalda að engu með því einu að neita að fara af landi brott og öðlast með því víðtæk réttindi hérlendis, líkt og RKÍ leggur til í skýrslu sinni, eru forsendur fyrir tilvist verndarkerfisins brostnar og tæplega ástæða fyrir fólk heldur að afla sér dvalarleyfis hér á landi ef þessi leið er opin á þennan hátt.

Skýrslan er aðgengileg á ensku á vef Rauða krossins á Íslandi og með útdrætti á íslensku.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum