Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2023 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpaði þing Evrópuráðsins í Strassborg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í dag ávarp á þingi Evrópuráðsins í Strassborg og svaraði spurningum þingmanna. Málefni Úkraínu, formennska Íslands í Evrópuráðinu og staða mannréttinda og lýðræðis í heiminum voru meðal þess sem forsætisráðherra ræddi í ávarpinu.

Forsætisráðherra ítrekaði mikilvægi áframhaldandi stuðnings og samstöðu með úkraínsku þjóðinni og fordæmdi stríðsglæpi Rússa. Takmarkið sé friður sem byggi á fullveldisrétti Úkraínu og virðingu fyrir alþjóðalögum.

Ísland fer með formennsku í Evrópuráðinu á fyrri hluta árs og ræddi forsætisráðherra áherslur formennskunnar. Þar leggur Ísland áherslu á grunngildi Evrópuráðsins sem eru mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Þar að auki er lögð áhersla á umhverfismál, réttindi barna og ungmenna og jafnrétti. Þá ræddi forsætisráðherra leiðtogafund Evrópuráðsins sem fram fer í Reykjavík í maí.

Forsætisráðherra fundaði fyrr í dag með Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins, Björn Berge,  aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, og þingmönnum í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins. Á öllum fundunum þremur var rætt um formennsku Íslands, fyrirhugaðan leiðtogafund og málefni Evrópuráðsins.

Þá flutti forsætisráðherra erindi við opnun ráðstefnu um réttindi intersex fólks en ráðstefnan er hluti af formennskuáætlun Íslands í Evrópuráðinu. Þá tekur forsætisráðherra þátt í fundi sameiginlegrar nefndar Evrópuráðsþingsins og ráðherranefndarinnar.

Í kvöld verður forsætisráðherra viðstödd opnunarviðburð íslenskrar viku á veitingastöðum í Strassborg þar sem íslenskur fiskur er í aðalhlutverki.

 


Formennska Íslands í Evrópuráðinu

Ísland tók formlega við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022. Helsta markmið formennskunnar verður að efla grundvallargildi Evrópuráðsins - lýðræði, réttarríkið og mannréttindi. Þar að auki eru formennskuáherslur Íslands umhverfismál, réttindi barna og ungmenna og jafnrétti.

Þetta er í þriðja sinn sem Ísland fer með formennsku í Evrópuráðinu frá inngöngu árið 1950 en áður leiddi Ísland starfsemina 1955 og 1999. Formennskunni lýkur formlega með leiðtogafundi í Reykjavík sem forsætis- og utanríkisráðherra boða til 16.-17. maí nk. Um er að ræða fjórða leiðtogafund Evrópuráðsins frá upphafi. Hann verður fjölmennasti leiðtogafundur og ráðherrafundur sem haldinn hefur verið á Íslandi.

Nánari upplýsingar um formennsku Íslands í Evrópuráðinu má finna í formennskubæklingi Íslands

Um Evrópuráðið

46 ríki með um 700 milljónir íbúa eiga aðild að Evrópuráðinu (e. Council of Europe, CoE). Markmið ráðsins er að standa vörð um mannréttindi, lýðræðislega stjórnarhætti og réttarríki í álfunni, og jafnframt að efla lífsgæði Evrópubúa. Evrópuráðið var stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar, m.a. með það að markmiði að stuðla að stöðugleika og koma með því í veg fyrir annað stríð í álfunni. Evrópuráðið vinnur á grundvelli alþjóðasamninga sem gerðir eru á vettvangi ráðsins. Ráðið vinnur m.a. að mannréttindamálum, lýðræðismálum, réttarfarsmálum, jafnrétti, tjáningarfrelsi, umhverfismálum, sveitarstjórnarmálum og mennta- og menningarmálum. Evrópuráðið hefur staðið að gerð um 200 alþjóðasamninga á ýmsum sviðum sem hafa jafnframt haft áhrif í öðrum heimshlutum. Mannréttindadómstóll Evrópu, sem er ein af lykilstofnunum á sviði mannréttinda í heiminum, framfylgir mannréttindasáttmála Evrópu. 

 

  • Forsætisráðherra ávarpaði þing Evrópuráðsins í Strassborg - mynd úr myndasafni númer 1
  • Forsætisráðherra ávarpaði þing Evrópuráðsins í Strassborg - mynd úr myndasafni númer 2
  • Forsætisráðherra ávarpaði þing Evrópuráðsins í Strassborg - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum