Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Gripið til aðgerða gegn stafrænu ofbeldi og tryggðasvikum

Dómsmálaráðherra hefur falið embætti ríkislögreglustjóra að grípa til sérstakra aðgerða vegna stafræns ofbeldis með áherslu á tryggðasvik, kynbundið ofbeldi á netinu og áframhaldandi úrbætur innan réttarvörslukerfisins. Þetta er í samræmi við tillögur starfshóps um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi.

Áhersla verði á miðlun upplýsinga til almennings, áframhaldandi endurskoðun á verklagi og þjálfun starfsmanna innan réttarvörslukerfisins.

Svokölluð tryggðasvik eiga sér stað þegar afbrotamenn villa á sér heimildir á netinu til að öðlast ást og traust þolenda.  Blekkingin er síðan nýtt til að misnota og/eða stela frá þolandanum.  Talið er að í Bandaríkjunum hafi fólk tapað á síðustu fimm árum 1,3 milljarði bandaríkjadollara vegna tryggðasvika, eða hærri fjárhæðum en í nokkrum öðrum fjármálasvikum. Þeir sem stunda tryggðasvik eru sérfræðingar í því sem þeir gera og virðast umhyggjusamir og trúverðugir.  Þá má finna á flestum stefnumóta- og samfélagsmiðlum.

Ofbeldi gegn konum á netinu birtist m.a. í kynferðislegum athugasemdum, neteinelti, stafrænum kynferðisbrotum og hótunum um nauðgun, kynferðislegt ofbeldi eða morð. Gerendur geta verið makar eða fyrrverandi makar, samstarfsmenn, skólafélagar eða ókunnugir.

Hugað verður að því hvernig sé best fyrir þolendur að tilkynna netbrot, hvernig megi nýta sem best fyrirliggjandi úrræði samhliða því að þróa áfram tæknilega aðstoð.

 

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra: „Aukið stafrænt ofbeldi  er verulegt áhyggjuefni. Ég hef lagt áherslu á að ofbeldi verði ekki liðið og það gildir hvort sem um er að ræða raun- eða netheima.  Því er mikilvægt að áfram verði unnið að afbrotavörnum á þessu sviði með fræðslu um netöryggi til almennings, bættu verklagi og þjálfun starfsmanna innan réttarvörslukerfisins.“ 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum