Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2023 Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

27. janúar helgaður minningu fórnarlamba helfararinnar

Ákveðið hefur verið að 27. janúar ár hvert verði á Íslandi helgaður minningu fórnarlamba helfararinnar og þá verði vakin sérstök athygli á aðdraganda hennar og þeim hryllingi sem í henni fólst. Forsætisráðherra, utanríkisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra hafa sammælst um að hefja vinnu til þess að móta þær leiðir sem farnar verða í þessu augnamiði hér á landi. 

Ákvörðunin er tekin í ljósi þess að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktaði 1. nóvember 2005 að 27. janúar yrði helgaður minningu fórnarlamba helfarar nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Þann dag árið 1945 voru fangar í Auschwitz-útrýmingarbúðum nasista frelsaðir. Ísland var meðal þeirra ríkja sem stóð að tillögunni, en hún var samþykkt án atkvæðagreiðslu.

Í aðfararorðum ályktunar allsherjarþingsins segir meðal annars að helförin sé ævarandi áminning um þá hættu sem stafar af hatri, ofstæki, kynþáttafordómum og hleypidómum. Í ályktuninni eru aðildarríki hvött til þess að þróa námsefni sem hafi það að markmiði að uppfræða kynslóðir framtíðarinnar um atburði helfararinnar og innræta í þeim þann lærdóm sem komið getur í veg fyrir að þjóðarmorð geti átt sér stað.

Í könnun sem gerð var á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og var birt 27. janúar 2022 kom fram að í 40 aðildarríkjum væri helfararinnar minnst á skipulegan hátt, svör fengust ekki frá tólf aðildarríkjum, en fimm aðildarríki upplýstu, þar á meðal Ísland, að þar væri helfararinnar væri ekki minnst sérstaklega. 30 aðildarríki minnast helfararinnar 27. janúar ár hvert. Í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð er helfararinnar sértaklega minnst á þessum degi.

Þingsályktunartillögur hafa á tveimur nýliðnum þingum verið lagðar fram um að 27. janúar verði tileinkaður minningu fórnarlamba helfararinnar en ekki hlotið afgreiðslu. Rósa Björk Brynjólfsdóttir var fyrsti flutningsmaður málsins á 151. löggjafarþingi en 19 aðrir þingmenn úr sex flokkum stóðu að tillögunni. Kennarasamband Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp og Sagnfræðingafélag Íslands sendu inn umsagnir sem voru allar jákvæðar í garð málsins.

Í ljósi mikilvægis þess að viðhalda þekkingu og skilningi á hinum hryllilegu atburðum síðari heimsstyrjaldarinnar þar sem yfir sex milljónir gyðinga voru myrtar verður starfhópi falið að gera tillögur um með hvaða hætti skuli minnast helfararinnar og hvernig auka megi fræðslu um þær hörmungar og aðdraganda þeirra. Horft verði til þess hvernig nálæg og líkt þenkjandi ríki standa að slíku.

Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum sem tilnefnir eru af forsætisráðherra, utanríkisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, auk fulltrúa frá háskólasamfélaginu og mannréttindasamtökum án tilnefningar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum