Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2023 Forsætisráðuneytið

Skýrsla úttektarnefndar um árangur Seðlabanka Íslands

Nefnd þriggja óháðra sérfræðinga hefur skilað forsætisráðherra skýrslu sinni um hvernig Seðlabanka Íslands hefur tekist að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits.

Í hnotskurn er það niðurstaða úttektarnefndarinnar að sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hafi verið hrundið í framkvæmd hratt og af skilvirkni. Samruni stofnana sé þó langtímaverkefni. Seðlabankinn hafi brugðist við vaxandi verðbólgu með hætti sem er ekki síðri en viðbrögð seðlabanka í Evrópu og N-Ameríku. Þjóðhagsvarúðartækjum hafi verið beitt til þess að varðveita fjármálastöðugleika og eftirlit hafi verið framkvæmt eftir reyndum ferlum.

Hins vegar bendir nefndin á að nýja nefndaskipan þurfi að meta í ljósi reynslunnar og ástæða sé til að endurskoða umboð fjármálaeftirlitsnefndar. Þá er bent á að hin miðstýrða stjórnskipan bankans sem hafi orðið fyrir valinu hafi stuðlað að skilvirkri framkvæmd sameiningarinnar en álitamál sé hvernig hún reynist til lengdar.

Í skýrslunni er að finna 17 tillögur nefndarinnar er varða peningastefnu, fjármálastöðugleika, fjármálaeftirlit og stjórnarhætti. Flestar tillagnanna eru til úrvinnslu fyrir Seðlabankann en nokkrar þeirra snúa að mögulegum lagabreytingum.

Úttektarnefndin var skipuð í maí sl. á grundvelli 36. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Auk fyrrnefndra verkefna var nefndinni ætlað að líta til annarra þátta í starfsemi bankans, svo sem skipulags, verkaskiptingar og valdsviðs. Í nefndina voru valin Patrick Honohan, Joanne Kellermann og Pentti Hakkarainen.

Patrick Honohan er fyrrverandi seðlabankastjóri Seðlabanka Írlands, en áður var hann prófessor við Trinity Collenge í Dublin, rannssóknarprófessor við Economic and Research Insitute í Dublin, hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann o.fl. Patrick hefur áður ritað skýrslu um umgjörð peningastefnu á Ísland og hefur því haldgóða þekkingu á íslensku efnahagslífi.

Joanne Kellermann var um skeið stjórnarmaður í hollenska seðlabankanum (member og the Governening Board) með ábyrgð á eftirliti árin 2007 – 2014. Árið 2016 varð hún Director of Resolution Planning and Decision og stjórnarmaður hjá Single Resolution Board í Brussel. Síðustu árin hefur Joan gegnt ýmsum stjórnarstörfum.

Pentti Hakkarainen var um árabil varaseðlabankastjóri Finnlandsbanka og formaður stjórnar finnska fjármálaeftirlitsins. Eftir að skipunartíma hans við Finnlandsbanka lauk var hann skipaður fulltrúi ECB í eftirlitsnefnd (Supervisory Board) sameiginlegs fjármálaeftirlits ECB sem samræmir eftirlit með stórum bönkum.

Skýrsla nefndarinnar er nú birt á ensku og samantekt hennar á íslensku. Skýrslan í heild sinni verður birt á íslensku þegar þýðingu hennar er lokið á næstu dögum.

Samantekt um skýrslu úttektarnefndar um árangur Seðlabanka Íslands 2020-2022

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum