Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sóknarfæri í nýsköpun

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Ásgerður Kristín Gylfadóttir, stjórnarformaður SASS. - mynd

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur styrkt Samtök sunnlenskra sveitarfélaga vegna viðskiptahraðalsins Sóknarfæri í nýsköpun. Markmið verkefnisins er að auka hvata til nýsköpunar á Suðurlandi, með sérstakri áherslu á hringrásarhagkerfið. Jafnframt því að kynna stoðkerfi nýsköpunar á Suðurlandi og hrinda af stað fjölbreyttum nýsköpunarverkefnum á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra tilkynnti um styrkveitingu til viðskiptahraðalsins er hann var á ferð um Suðurland í gær.

Í Stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að Ísland verði vagga nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar. Styðja eigi við græna atvinnuuppbyggingu og fjárfestingar ásamt því að greiða götu verkefna, m.a. á sviði föngunar, geymslu og förgunar kolefnis, uppbyggingu hringrásarhagkerfis með fjölnýtingu orkustrauma og orkuskipta.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra:  „Til að ná markmiðum okkar í umhverfismálum verðum við að nýta okkar helstu auðlind, hugvitið. Það er ánægjuefni að geta stutt frumkvöðla til góðra verka með stuðningi við Sóknarfæri.“

Sóknarfæri í nýsköpun er átta vikna sunnlenskur viðskiptahraðall þar sem áhersla er lögð á verkefni sem tengjast orku, mat og líftækni, ferðaþjónustu og skapandi greinum. Þar fá þátttakendur tækifæri til þess að efla sig og sínar hugmyndir undir handleiðslu reyndra þjálfara og/ráðgjafa.

Sóknarfæri er byggt upp að fyrirmynd viðskiptahraðals sem er sérhannaður með þarfir teymanna sem taka þátt í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða. Hraðlinum verður stýrt af Svövu Björk Ólafsdóttur stofnanda RATA en hún hefur jafnframt haldið utan um viðskiptahraðla á vegum Norðanáttar.

Hraðallinn er ætlaður frumkvöðlum, nýjum fyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum innan rótgróinna fyrirtækja á Suðurlandi sem eru komin af hugmyndastigi og vilja nýta Sóknarfæri í nýsköpun til að komast lengra með sín verkefni.

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum