Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Verkefnastofa mótar tillögur um sjálfbæra og gagnsæja gjaldtöku af vegasamgöngum til framtíðar

Fjármála- og efnahagsráðuneytið og innviðaráðuneytið hafa sett á fót verkefnastofu sem falið verður að vinna með ráðuneytunum að mótun tillagna um nýtt fyrirkomulag tekna af vegasamgöngum til framtíðar.

Undanfarin ár hefur tæknileg og samfélagsleg þróun orðið til þess að tekjur ríkisins af umferð og ökutækjum hafa dregist mikið og hratt saman. Fram hafa komið nýir orkugjafar og sparneytnari ökutæki sem losa minni koltvísýring. Stjórnvöld hafa sett fram stefnumörkun um að hraða orkuskiptum og auka notkun hreinna orkugjafa í samgöngum, þar á meðal með ívilnunum, sem hefur sömuleiðis í för með sér að tekjur ríkisins fara þverrandi. Samhliða ríkulegum hvötum til orkuskipta hefur mikill árangur náðst í orkuskiptum bílaflotans. Fyrir vikið greiðir stækkandi hópur afar lítið fyrir notkun vegakerfisins.

Það er stefna stjórnvalda sem birtist í fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026 að tekjur af þessu tagi nái sínu fyrra sögulega meðaltali, enda hafa þær verið mikilvægur þáttur í tekjuöflunarkerfi ríkisins. Hefur einna helst verið til skoðunar að taka upp almenna innheimtu á gjöldum af notkun ökutækja, s.s. kílómetragjald.

Á sama tíma hafa stjórnvöld metnaðarfull áform um áframhaldandi uppbyggingu og viðhald samgönguinnviða, meðal annars verkefni sem fjármögnuð verði með umferðar- eða veggjöldum. Annars vegar er um að ræða uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, sem sérstöku opinberu hlutafélagi, Betri samgöngum, hefur verið falið að annast um á grundvelli svonefnds samgöngusáttmála. Hins vegar eru nokkur stærri þjóðhagslega mikilvæg innviðaverkefni sem til stendur að fjármagna með notkunargjöldum. Þessi áform fela í sér að unnt verði að hækka fjárfestingastigið á komandi árum með hraðari uppbyggingu stærri og arðbærra samgönguinnviða en hefðbundin framlög í fjárlögum til samgönguáætlunar gera kleift.

Þessi áform kalla á að mótuð verði heildstæð framtíðarsýn um breytt fyrirkomulag gjaldtöku af ökutækjum, eldsneyti og afnotum vegakerfisins sem geti orðið sjálfbært til langrar framtíðar. Þannig verði dregið úr sértækum gjöldum á borð við eldsneytisgjöld, vörugjöld o.fl. og tekið upp gagnsærra og sanngjarnara kerfi sem miðast í auknum mæli við notkun.

Samráð fjármála- og efnahagsráðuneytisins og innviðaráðuneytisins hefur byggst á þeim sjónarmiðum að eftirsóknarvert sé að nýtt fyrirkomulag feli í sér heildstætt, hagkvæmt og samræmt gjaldtökukerfi á landsvísu, að forðast margs konar gjaldtöku á hendi fjölda aðila og að gagnsæi og einfaldleiki kerfisins verði sem mestur gagnvart greiðendum.

Verkefnastofunni er ætlað að vinna að úrlausnarefnum á þessu sviði í samstarfi við ráðuneytin. Stýrinefnd með fulltrúum ráðuneytanna tveggja ásamt fulltrúa forsætisráðuneytis mun hafa yfirumsjón með framgangi í vinnu verkefnastofunnar og verða vettvangur samráðs um stefnumarkandi tillögur og ákvarðanir um fyrirkomulag tekjuöflunarkerfisins.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum