Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vindorkuhópur skilar verkefni sínu í áföngum

Vindmyllur - myndJohannes Jansson/norden.org

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur fallist á beiðni starfshóps um málefni vindorku, sem ráðherra skipaði í sumar,  um að skila verkefninu í áföngum. Ráðherra greindi frá þessu á ríkisstjórnarfundi í gær, en hópurinn átti að skila niðurstöðum sínum og drögum að lagafrumvarpi 1. febrúar.

Samkvæmt breytingunum mun hópurinn skila samantekt þar sem dregin verða fram þau atriði sem starfshópurinn hefur verið að fjalla um og sem heppilegt kann að vera að fái opinbera umræðu, áður en endanlegar tillögur að lagabreytingum verði lagðar fram. Hópurinn mun svo skila tillögum sínum að frumvarpi til ráðuneytisins nú í vor.

Ráðherra mun í mars halda opna fundi víða um land ásamt fulltrúum starfshópsins þar sem fjallað verður um orkuskipti með áherslu á hlutverk vindorku þar sem stöðuskýrsla hópsins verður m.a. til umfjöllunar. 

Mikil áhersla er lögð á að horft sé til þess að ná sem breiðastri sátt um hagnýtingu vindorku meðal landsmanna, en ljóst er af opinberri umræðu að mikill áhugi er um þessi mál í samfélaginu og skoðanir skiptar.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Til að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum þá þurfum við að nýta vindinn. Það skiptir hins vegar öllu máli að ná eins breiðri samstöðu um þá nýtingu og mögulegt. Ég er sammála starfshópnum um að þó það sé mikilvægt að skýrar reglur verði sem fyrst til staðar á þessu sviði, þá er enn mikilvægara að þær reglur sem verði settar byggi á upplýstri umræðu og þátttöku almennings að því marki sem raunhæft er og eru fundirnir ætlaðir til að heyra raddir sem flestra.“

Starfshópurinn tók að fullu til starfa í lok ágúst 2022. Í kjölfarið sendi starfshópurinn bréf til fjölmargra aðila sem líklegir þóttu til að hafa hag af eða skoðun á atriðum sem til umfjöllunar yrðu, þar sem skorað var á þá að setja fram skoðanir sínar og taka þannig þátt í að móta niðurstöðu starfshópsins. Einnig var birt á vef stjórnarráðsins áskorun til hagaðila, sveitarfélaga, félagasamtaka og almennings um að senda umsagnir til starfshópsins og bárust yfir 50 umsagnir.

Hefur starfshópurinn haldið vel á þriðja tug funda auk þess að hafa tvívegis haldið tveggja daga vinnulotu. Yfir 70 gestir hafa komið á fundi starfshópsins og sérstakt reglulegt samráð hefur verið við Samband íslenskra sveitarfélaga í samræmi við fyrirmæli í skipunarbréfi. Þá hefur starfshópurinn notið lögfræðilegrar úttektar BBA/Fjeldco á lagaumhverfi vegna vindorkuvera í völdum löndum. Einnig hefur starfshópurinn átt í samstarfi við annan starfshóp ráðuneytisins, sem ætlað er að vinna heildrænt yfirlit yfir möguleika til framleiðslu raforku frá vindorkuverum á hafi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum