Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nýsköpunarhraðallinn „Austanátt“ ræstur

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra undirritaði í gær viðaukasamning milli umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) við samning um Sóknaráætlun Austurlands. Markmiðið með viðaukasamningnum er að styðja við nýsköpunarverkefni tengd hringrásarhagkerfinu með viðskiptahraðlinum „Austanátt“.

Undirritunin fór fram á skrifstofum Austurbrúar á Vonarlandi á Egilsstöðum er ráðherra var þar á ferð, en samningurinn gildir fyrir árið 2023 og telur samtals 10 milljónir kr.

Í Stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að Ísland verði vagga nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar. Styðja eigi við græna atvinnuuppbyggingu og fjárfestingar ásamt því að greiða götu verkefna, m.a. á sviði föngunar, geymslu og förgunar kolefnis, uppbyggingu hringrásarhagkerfis með fjölnýtingu orkustrauma og orkuskipta.

Aukinn hvati til nýsköpunar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Uppbygging öflugs hringrásarhagkerfis er mikilvægur þáttur í því að stjórnvöld nái metnaðarfullum markmiðum sínum í loftslagsmálum. Samningurinn um Sóknaráætlun Austurlands er upphaf að góðu samstarfi sem við verðum og ætlum að eiga við þetta öfluga samfélag sem hér er.“

Markmið samningsins er m.a. að auka hvata til nýsköpunar á Austurlandi sem felur í sér að komið verður á laggirnar nýsköpunarhraðli fyrir frumkvöðla á Austurlandi, verkefni sem bera mun heitið „Austanátt“, en Austurbrú mun fara með framkvæmd samningsins fyrir hönd SSA.

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri SSA: „Það er mikil gróska í nýsköpun á Austurlandi og þessi viðaukasamningur gerir okkur enn betur kleift að styðja við bakið á öflugum frumkvöðlum hér í landshlutanum sem vinna að verkefnum sem hafa nýsköpun og þróun á grunni hringrásarhagkerfis að leiðarljósi. Þetta skiptir landshlutann miklu máli og er lykilstef í Svæðisskipulagi Austurlands 2022 – 2044 sem tók gildi sl. haust.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum