Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Námskeið um foreldrafærni

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ - mynd

Ein helsta forsenda farsældar barna í æsku og til framtíðar er að foreldrar séu vel undirbúnir undir nýtt hlutverk, fái fræðslu, markvissan stuðning, og aðstoð við hæfi allt frá fæðingu barns. Geta og færni foreldra er lykilþáttur í því að börn í samfélagi okkar nái að þroskast og dafna á eigin forsendum.

Til að efla þessa færni hefur mennta- og barnamálaráðherra, í samstarfi við Háskóla Íslands, sett af stað tveggja ára verkefni um þróun námskeiða um uppeldi barna fyrir foreldra, sem haldin verða í leik- og grunnskólum. Aðalmarkmið verkefnisins er að valdefla foreldra í uppeldishlutverki sínu og efla grunnþjónustu við börn og foreldra.

,,Rannsóknir sýna að markviss stuðningur við foreldra í uppeldi barna sinna er ein arðbærasta fjárfesting sem nokkurt samfélag getur gert, hvort sem horft er til velferðar einstaklinga eða hagrænna mælikvarða samfélagsins alls. Ég hlakka mjög til þess að koma af stað þessari fjárfestingu og að fylgjast með framgangi hennar næstu tvö árin og vonandi enn lengur en það,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Lögð verður rík áhersla á að styrkja samstarf milli skólasamfélagsins og foreldra um uppeldi barna með markvissum hætti. Námskeiðin verða þannig þróuð í samstarfi við kennara og foreldra við valda leik- og grunnskóla og í nánu samstarfi við Menntamálastofnun. Við þróun námskeiðanna verður sérstaklega horft til gagnreyndra aðferða Dr. Carolyn Webbster Stratton, The Incredible Years. Markmiðið er að í framhaldinu verði þau aðgengileg öllum leik- og grunnskólum á landinu. Á þróunartímanum verða áhrif námskeiðsins metin m.a. út frá reynslu foreldra, barna, skólasamfélagsins og mögulegum hagrænum ávinningi verkefnisins. Faglegur stjórnandi þessa þróunarverkefnis verður Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Námskeiðin eru mikilvægur liður í að styðja við þá hugmyndafræði sem ný löggjöf um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna byggir á auk nýrra laga um skólaþjónustu sem stefnt er að því að leggja fram á Alþingi á næsta löggjafarþingi.

„Við á Menntavísindasviði fögnum þessu framtaki stjórnvalda. Þetta verkefni hefur mikla þýðingu því grunnurinn að þroska, námi og velferð er lagður á heimili barna. Rannsóknir hafa sýnt að með markvissum hætti er hægt að styðja við foreldra í þessu margslungna hlutverki og nú á að bæta úr þeirri miklu þörf sem er á aukinni foreldrafræðslu. Fræðafólk á Menntavísindasviði mun koma til með að vinna að þessu mikilvæga verkefni í samvinnu við fagfólk á vettvangi. Þessi samvinna um að styðja við foreldra í uppalendahlutverki er einmitt það sem hefur bráðvantað og við erum handviss um að verkefnið muni skila árangri,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum