Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Íslenskir sérfræðingar á leið til hamfarasvæðanna í Tyrklandi

Íslenskir sérfræðingar á leið til hamfarasvæðanna í Tyrklandi - myndLandhelgisgæsla Íslands

Hópur íslenskra sérfræðinga á sviði aðgerðastjórnunar í rústabjörgun á hamfarasvæðum heldur brátt til jarðskjálftasvæðanna í Tyrklandi. Stefnt er að því að sveitin, sem starfar innan vébanda Slysavarnafélagsins Landsbjargar, fljúgi á vettvang með flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF.

Þúsundir fórust þegar öflugur jarðskjálfti reið yfir suðausturhluta Tyrklands, nærri landamærum Sýrlands, aðfaranótt 6. febrúar. Óttast er að margir séu enn grafnir í húsarústum. Stjórnvöld í Tyrklandi hafa óskað eftir aðstoð vegna hamfaranna og hafa hjálparbeiðnir borist bæði í gegnum viðbragðskerfi Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra lagði til á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að brugðist yrði við beiðni tyrkneskra stjórnvalda með því að senda á vettvang hóp sérfræðinga á sviði rústabjörgunar. Um er að ræða aðgerðastjórnendur, verkfræðinga og stuðningsteymi. Ísland er virkur þáttakandi sérstaks samstarfsvettvangs á vegum Sameinuðu þjóðanna um rústabjörgun (INSARAG) og er sveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar á viðbragðslista hans.

„Um leið og fréttir bárust um hörmungarnar af völdum þessara miklu jarðskjálfta fórum við að leita leiða til að rétta fram hjálparhönd. Á Íslandi er til staðar hópur þrautþjálfaðs fagfólks sem getur lagt mikið af mörkum í þessum erfiðu aðstæðum og er reiðubúið að svara ákalli tyrkneskra stjórnvalda. Við höfum undirbúið för íslenska hópsins í góðri samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg og Landhelgisgæsluna. Við erum þakklát fyrir þetta fólk og þá staðreynd að við getum gert gagn við þessar aðstæður,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Stefnt er að því að flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF flytji hópinn til Tyrklands og er gert ráð fyrir að hann dveljist þar í um það bil viku. Til stóð að vélin færi í loftið nú síðdegis en vegna veðurs á leiðinni varð að fresta brottför. Til viðbótar við stuðning við hjálpar- og björgunarstarfið í Tyrklandi munu íslensk stjórnvöld styðja fórnarlömb jarðskjálftanna á Sýrlandi í gegnum alþjóðleg hjálparsamtök.

Tilkynningin hefur verið uppfærð í ljósi seinkunar á brottför hópsins. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum