Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Neytendur munu geta fylgst með daglegu matvöruverði á einum stað

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar, undirrituðu samninginn að forsætisráðherra viðstöddum. - mynd

Samningur um sérstaka Matvörugátt þar sem neytendur geta fylgst með verði á helstu neysluvörum stærstu matvöruverslana landsins var undirritaður í dag í Ráðherrabústaðnum. Gáttin er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði í desember þar sem kveðið er á um að veittur verði stuðningur til að auka aðhald á neytendamarkaði með því að bæta aðgengi almennings að upplýsingum um þróun verðlags og skapa þannig hvata fyrir fyrirtæki til að halda aftur af verðhækkunum.

„Stuðningur við aukið aðhald á neytendamarkaði er mikilvægur liður í aðgerðum stjórnvalda vegna nýgerðra kjarasamninga til að vinna gegn verðbólgu og tryggja kaupmátt. Með því stuðlum við að virkara beinu eftirlit neytenda með vöruverði en við núverandi aðstæður er ekki síst brýnt að söluaðilar sýni ábyrgð og gæti hófs í verðlagningu á vörum sínum, „ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

„Aukið gagnsæi og markviss upplýsingagjöf er eitt besta verkfæri sem hægt er að beita í þágu skilvirkari  samkeppnis- og neytendamála. Matvörugáttin skiptir máli á þeirri vegferð að stemma stigu við verðbólgunni og auka gagnsæi á dagvörumarkaði. Með henni munu neytendur geta fylgst með daglegu matvöruverði á einum stað, rétt eins og þeir hafa getað fylgst með bensínverði á sambærilegum síðum, “ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Samningurinn er á milli menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Rannsóknarsetur Verslunarinnar og leggur menningar- og viðskiptaráðuneytið 10 milljónir króna til verkefnisins.

Markmið Matvörugáttarinnar er að auka aðhald á neytendamarkaði. Vinna stendur nú yfir við að setja upp gáttina og mun hún opna almenningi á næstu vikum. Neytendur munu þar geta séð þróun vöruverðs frá upphafi árs 2023. Gáttin mun sýna verð dagsins á fjölda vörutegunda, þróun á verði og samanburð milli verslana þannig að neytendur geti sett saman sína innkaupakörfu í gáttinni og fengið samanburð á verði hennar milli verslana. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum