Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2023 Innviðaráðuneytið

Mælt fyrir breytingum á umferðarlögum til að auka öryggi smáfarartækja

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi fyrir helgi fyrir frumvarpi til breytinga á umferðarlögum frá 2019 (nr. 77/2019). Í frumvarpinu er m.a. tillögur um smáfarartæki og öryggi þeirra, virðisaukaívilnun vegna reiðhjóla, heimild ríkisaðila til að setja reglur um notkun og gjaldtöku á stöðureitum í sinni eigu og loks innleiðingu á Evrópureglum.

Öryggi smáfarartækja

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem byggja á tillögum starfshóps um smáfarartæki sem kynntar voru í fyrra. Markmið þeirra er að auka umferðaröryggi smáfarartækja án þess að standa í vegi fyrir frekari framþróun fjölbreyttari ferðamáta. 

Vinsældir rafhlaupahjóla hafa verið miklar og notkun þeirra margfaldast á undanförnum árum. Þeim vinsældum hafa þó fylgt áskoranir og meðal þess sem greinir í niðurstöðum starfshópsins er að slys eru hlutfallslega tíð miðað við umferð. Fram kom í gögnum starfshópsins að mörg börn slasist á rafhlaupahjólum en þau voru 45% þeirra sem leituðu á bráðamóttöku vegna slíkra slysa.

Frumvarpið felur í sér allar tillögur starfshópsins sem vörðuðu breytingar á umferðarlögum. Tillögurnar sem starfshópurinn lagði til eru þessar:

  • Nýr ökutækjaflokkur smáfarartækja verði innleiddur í umferðarlög. Miðað yrði við að smáfarartæki væru ekki hönnuð til hraðari aksturs en 25 km á klst. og að hjól yfir þeim mörkum væru óheimil í umferð.
  • Hlutlægt viðmið um áfengismagn í blóði ökumanna smáfarartækja.
  • Ökumenn smáfarartækja skyldu að lágmarki hafa náð 13 ára aldri og að yngri en 16 ára yrði gert skylt að nota hjálm.
  • Almennt bann lagt við því að breyta hraðastillingum aflknúinna smáfarartækja, léttra bifhjóla og rafmagnsreiðhjóla.
  • Akstur smáfarartækja í almennri umferð verði leyfður á vegum þar sem hámarkshraði er ekki meiri en 30 km á klst. að því gefnu að tillögur um ölvunarakstur og aldursmörk nái fram að ganga enda geti veghaldari lagt bann við umferð smáfarartækja á einstökum vegum eða vegarköflum þyki ástæða til þess.

Reglur um stöðureiti og virðisaukaskattsívilnun vegna reiðhjóla

Í frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar sem tengjast hvorki innleiðingu evrópskra reglan né tillögum starfshóps um smáfarartæki.

Annars vegar er lagt til að ríkisaðila verði með samþykki ráðherra heimilað að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku á eigin landi. Um er að ræða viðbót við fyrri heimildir til að sjá um innheimtu fyrir notkun stöðureita sem ríkisaðili hefur umsjón með.

Hins vegar er lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði í virðisaukaskattslögum í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Með henni er lagt til að sérstök virðisaukaskattsívilnun vegna reiðhjóla verði áfram í gildi. 

Breytingar vegna innleiðingar Evrópureglna

Með frumvarpinu er ætlunin að tryggja lagastoð til innleiðingar fjögurra reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins og einnar tilskipunar. Í þeim er m.a. lagt til að HMS verði falið markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum, eftirvögnum og fleiru en Samgöngustofa fer með leyfi og viðurkenningar. Þá eru lagðar til tilteknar breytingar á reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna í farþega- og farmflutningum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum