Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2023 Innviðaráðuneytið

Sigurður Ingi tók fyrstu skóflustungu að nýjum íbúðabyggingum í Neskaupstað

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra,tók fyrstu skóflustungu að íbúðabyggingum í Neskaupstað í dag. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tók í dag fyrstu skóflustungu að tveimur húsbyggingum í Neskaupstað en þar verða samtals 16 íbúðir. Byggingarnar eru fjármagnaðar með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélagi (Fjarðabyggð).

Fjarðabyggð, Múlaþing og Fljótsdalshreppur hafa skilað inn staðfestri húsnæðisáætlun fyrir árið 2023 til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Samkvæmt þeim er áætlað að þurfi að byggja 343 íbúðir á næstu 5 árum. Samkvæmt mannvirkjaskrá HMS eru 118 íbúðir nú í byggingu á Austurlandi og 12 íbúðir hafa talist fullbúnar það sem af er ári.

Íbúðirnar í Neskaupstað verða byggðar úr módúleiningum og verða nánast fullbúnar þegar búið verður að reisa einingarnar. Áætlað er að einingarnar verði reistar um miðjan mars eða þegar jarðvinnu er lokið og búið er að steypa undirstöður. Einingarnar verða reistar á um tíu dögum og því er áætlað að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar rétt eftir páska. 

Brák íbúðafélag hses. hefur keypt fjórar íbúðir, Síldarvinnslan og Samband útvegsmanna á Neskaupstað hafa keypt 4 íbúðir hvor um sig, Loks er stefnt að því fjórar síðustu íbúðirnar verði seldar með hlutdeildarlánum frá HMS fyrir fyrstu kaupendur.

Auk þessara íbúða í Neskaupstað byggir íbúðafélagið Brák 10 íbúðir við Selbrún í Fellabæ í Múlaþingi. Þær íbúðir eru einnig fjármagnaðar með stofnframlögum og leiguíbúðláni frá HMS. Bygging íbúðanna gengur vel og er nú langt komin. Áætlað er að íbúðirnar verði afhentar í vor. Fyrirhugað er að byggja fleiri íbúðir við Selbrún eða samtals 40 íbúðir.

Á Seyðisfirði er verið að byggja átta íbúðir fyrir eldri borgara. Sú framkvæmd er einnig fjármögnuð með stofnframlögum og leiguíbúðaláni frá HMS. 

Leigufélagið Bríet hefur einnig komið að uppbyggingu nýrra íbúða á Austurlandi á undanförnum misserum t.a.m. á Reyðarfirði. Fyrirhugað er að fjölga íbúðum í byggingu á vegum Bríetar á Austurlandi m.a. á Eskifirði, Breiðdalsvík og á Djúpavogi.

Myndatexti: Sigurður Ingi tók fyrstu skóflustungu að íbúðabyggingum í Neskaupstað í dag.

  • Byggðar verða sextán íbúðir í tveimur byggingum á þessum reit í Neskaupstað. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum