Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styður verkefni til að draga úr félagslegri einangrun viðkvæmra hópa

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt styrki til verkefna sem miða að því að draga úr félagslegri einangrun viðkvæmra hópa. Verkefnin eru starfrækt á höfuðborgarsvæðinu, í Eyjafirðinum og á Suðurnesjum.

EAPN á Íslandi

EAPN á Íslandi, samtök gegn fátækt og félagslegri einangrun, fá styrk til að bjóða upp á virkniúrræði þar sem áhersla verður meðal annars lögð á að ná til karlmanna sem eru félagslega einangraðir, s.s. vegna atvinnuleysis, fólks af erlendum uppruna og annarra félagslegra einangraðra hópa. Verkefnið er til tveggja ára og styrkurinn nemur 9 milljónum króna.

Dæmi um viðfangsefni verða handverksnámskeið, spiladagar og margs konar valdefling einstaklinga, svo sem varðandi viðgerðir á fatnaði, notkun heimabanka og gerð skattaskýrslu.

Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis

Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis fær styrk til þess að bjóða upp á virkniúrræði sem miðar að því að draga úr félagslegri einangrun fólks í viðkvæmri stöðu. Umsjónarmaður verkefnisins sér um velferðarstarf og virkniúrræði á Akureyri en verkefnið er unnið í samstarfi við Hjálpræðisherinn, Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd og Rauða krossinn. Styrkurinn nemur 4 milljónum króna. 

Meðal þess sem boðið verður upp á er tungumálakaffi, gönguhópur, ýmiss konar námskeið og aðstoð við heimanám.    

Hjálpræðisherinn á Suðurnesjum

Hjálpræðisherinn á Íslandi fær 5 milljóna króna styrk til að styðja við virkniúrræði sín á Suðurnesjum. Opnuð hefur verið verslun á Ásbrú þar sem fólki gefst tækifæri til að sinna ýmsum verkefnum, svo sem sjálfboðastarfi í versluninni. Boðið er upp á kertagerð, aðstoð í gróðurhúsi og íslensku- og enskukennslu, svo eitthvað sé nefnt, en stór hluti hópsins er fólk af erlendum uppruna.

Einnig hefur verið efnt til samstarfs milli Hjálpræðishersins og Nettó og fá samtökin matvörur frá versluninni sem eru að nálgast síðasta söludag. Þær eru notaðar til að útbúa hádegismat fyrir þau sem á þurfa að halda og sjá sjálfboðaliðar um matseldina. Verkefnið miðar þannig að því að draga úr matarsóun um leið og það hefur í för með sér aukna virkni og samveru þeirra sem hennar þarfnast.

Nú þegar sækja um 70-100 manns fjölbreytt úrræði á svæðinu á vegum Hjálpræðishersins, mest innflytjendur og umsækjendur um alþjóðlega vernd, en einnig fólk sem metið hefur verið til örorku og eldra fólk.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum