Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Tekist hefur að vinna á uppsöfnuðum málafjölda kynferðisbrota

Tekist hefur að vinna töluvert niður uppsafnaðan málafjölda hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu (LRH) með fjölgun starfsfólks og breyttum vinnubrögðum. Opnum kynferðisbrotamálum á ákærusviði og í kynferðisbrotadeild LRH hefur fækkað um 37% á undanförnum mánuðum eftir að embættið hlaut sérstaka fjárveitingu til að styrkja rannsókn og saksókn kynferðisbrota. Til marks um þetta þá voru 401 opin mál hjá embættinu þann 1. september sl. en 17. janúar sl. voru þau komin niður í 253 og fækkaði því um 148. Embættinu barst á sama tíma nokkur fjöldi nýrra mála en í heild lauk rannsókn alls 239 kynferðisbrotamála á þessu fjögurra og hálfs mánaða tímabili.

Aðgerðaáætlun dómsmálaráðherra um meðferð kynferðisbrota fyrir árin 2023-2025 tekur gildi í febrúar 2023. Við vinnslu hennar var ákveðið að sérstök fjárveiting færi í að styrkja rannsókn og saksókn kynferðisbrota. Í samræmi við aðgerðaáætlunina úthlutaði dómsmálaráðherra strax á síðasta ári fjármagni til ráðninga í sjö nýjar stöður hjá LRH: Sérfræðing á líftæknisviði í tæknideild, sérfræðing hjá tölvurannsóknardeild, auk þess sem ráðið var í tvær nýjar stöður á ákærusviði og þrjár í kynferðisbrotadeild. Viðkomandi hófu allir störf haustið 2022.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra:
„Eitt fyrsta verk mitt sem dómsmálaráðherra var að leggja þunga áherslu á að þessi málaflokkur, forvarnir, rannsókn og saksókn kynferðisbrota fengi algeran forgang. Við lögðum til verulega aukningu fjármuna til þess að bæta og hraða málsmeðferð i viðbót við það sem þegar hafði verið ákveðið og höldum því áfram á þessu ári. Enn er verk að vinna en allir geta verið sammála um að verulegur og jákvæður árangur er þegar farinn að sjást."

Ráðist hefur verið í ýmsar aðrar aðgerðir til að flýta meðferð kynferðisbrota. Verkferlar embættisins voru endurskoðaðir með það að markmiði að auka málshraða við rannsóknir brotanna. Þá var samvinna kynferðisbrotadeildar og tölvurannsóknardeildar aukin og bætt til að stytta rannsóknartíma rafrænna gagna sem tengjast kynferðisbrotum og einnig var stoðþjónusta frá þjónustudeild embættisins aukin. Þar að auki var útbúið stjórnborð þar sem fylgst er með fjölda mála og framvindu þeirra hjá kynferðisbrotadeild og ákærusviði.

Þetta eru framfaraskref við meðferð kynferðisbrota hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og standa vonir til að afgreiðsla mála sem hafa því miður verið of lengi í kerfinu, með tilheyrandi áhrifum á brotaþola, verði flýtt eins og kostur er.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum