Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2023 Dómsmálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Breytingar á lögum um dvalarleyfi útlendinga og vegabréfsáritanir

Dómsmálaráðuneytið hefur lagt fram drög að frumvarpi til breytinga á útlendingalögum um dvalarleyfi útlendinga í Samráðsgátt. Frumvarpinu er ætlað að stuðla að gagnsærri og stöðugri framkvæmd laganna til hagsbóta fyrir umsækjendur um dvalarleyfi. Breytingarnar eru að mestu ívilnandi fyrir umsækjendur um dvalarleyfi og dvalarleyfishafa hérlendis.

Frumvarpsdrögin eru komin í Samráðsgátt og fram til 7. mars er öllum heimilt að láta í ljós sitt álit á þeim. Hér á eftir fylgir samantekt á helstu þáttum sem breytast verði frumvarpið að lögum.

Doktorsnemar

Doktorsnemar mega vera staddir hér á landi þegar þeir sækja um dvalarleyfi. Einstaklingar í slíkri stöðu hafa lokið samsvarandi meistaranámi og þurfa að fara í gegnum ítarlegt umsóknarferli hjá viðkomandi háskóla.

Vistráðning

Heimilt verður að endurnýja dvalarleyfi vegna vistráðningar í allt að eitt ár til viðbótar,  en samkvæmt gildandi lögum er ekki heimilt að endurnýja slík dvalarleyfi sem jafnan er veitt til eins árs.

Sérfræðingar og atvinnumissir

Útlendingur sem hefur dvalarleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar, getur fengið dvalarleyfi til sex mánaða ef viðkomandi missir vinnuna hérlendis. Þannig hefur viðkomandi svigrúm til að leita sér starfs á grundvelli sérþekkingar sinnar. Er einnig lagt til að heimilt verði að veita slíkt leyfi til sama tíma þegar innan við mánuður er eftir af gildistíma dvalarleyfis sem annars yrði afturkallað vegna þess að slit hefur orðið á ráðningarsambandi. Samkvæmt gildandi lögum hefur sérfræðingur einungis þrjá mánuði til að finna sér nýtt starf á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar hafi hann misst starf sitt.

Skortur á starfsfólki

Lagt er til að heimilt verði að endurnýja dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki til tveggja ára í stað eins árs. Auk þess er ekki lengur gerð krafa um að útlendingur, sem haft hefur slíkt dvalarleyfi, þurfi að dvelja samfellt tvö ár erlendis áður en hann getur sótt um að nýju.

Dvalarleyfi að loknu háskólanámi

Heimilt verður að endurnýja dvalarleyfi útlendings sem lokið hefur háskólanámi hér á landi í allt að 12 mánuði frá útskriftardegi til atvinnuleitar hérlendis á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar en samkvæmt gildandi lögum er sú tímalengd sex mánuðir. Með breytingunni fá nýútskrifaðir háskólanemar þannig aukið svigrúm til atvinnuleitar á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar.

Fjölskyldusameining á grunni dvalarleyfis

Lagt er til að dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamnings veiti rétt til fjölskyldusameiningar. Er breytingin nauðsynleg til að gera slík dvalarleyfi meira aðlaðandi fyrir fjölskyldufólk sem vill koma hingað til lands og starfa en gildandi lög heimila ekki þessum dvalarleyfishöfum að taka fjölskyldu sína með til landsins til dvalar nema til skemmri tíma, s.s. sem ferðamaður.

Stofnun hjúskapar til að afla dvalarleyfis

Í frumvarpinu er lagt er til að ráðherra verði falið með reglugerðarheimild að útfæra nánar þau viðmið sem stjórnvöld skuli líta til við mat á hvort rökstuddur grunur sé til staðar um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Er nauðsynlegt að stjórnvöld hafi skýrari viðmið við það mat en lögin og lögskýringargögn með þeim veita ekki fullnægjandi leiðbeiningar.

Eftirlit með vistráðningum

Útlendingastofnun verði veitt heimild til að fela sérstökum aðila að hafa eftirlit með vistráðningum, þ.m.t að taka út aðstæður á heimili vistfjölskyldu, taka viðtal við hinn vistráðna og vistfjölskyldu og sjá til þess að vistráðningarsamningur sé virtur í hvívetna. Með þessu verður stofnuninni unnt að efla eftirlit með vistráðningum hér á landi og koma í veg fyrir misnotkun á hinum vistráðna. Samhliða frumvarpi þessu er til skoðunar að gera breytingar á ákvæðum reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017, með síðari breytingum, m.a. um lágmarksfjárhæð vasapeninga og framfærsluskilyrði vistfjölskylda, m.a. svo hún teljist hafa trygga framfærslu í skilningi laganna.

Breskir ríkisborgarar

Jafnframt eru lagðar til breytingar sem leiða af úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Er áréttað í frumvarpinu að breskir ríkisborgarar sem hafa dvalarleyfi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XI njóti réttar til fjölskyldusameiningar. Einnig er kveðið á um að réttur bresks ríkisborgara og aðstandanda hans sem hafa öðlast rétt til tímabundinnar dvalar skv. 84., 85. og 86. gr. laganna falli niður þegar viðkomandi hefur dvalist utan landsins í tvö ár samfellt en gildandi lög mæla einungis um niðurfellingu slíkra réttinda þegar viðkomandi hefur heimild til ótímabundinnar dvalar. Bresk stjórnvöld gera sambærilega kröfu gagnvart íslenskum ríkisborgurum og aðstandendum þeirra í þessari stöðu.

Vegabréfsáritun

Í frumvarpinu er lagt til að umsækjandi um vegabréfsáritun njóti ekki andmælaréttar þegar tekin er ákvörðun um synjun, ógildingu eða afturköllun vegabréfsáritanir. Eins og nánar er rakið í skýringum við 1. gr. frumvarpsins tekur ákvæðið mið af þeim athugasemdum sem fasta eftirlitsnefndin á vegum Schengen-samstarfsins hefur gert við málsmeðferð íslenskra stjórnvalda en samkvæmt nefndinni er sú framkvæmd ekki í samræmi við þær alþjóðaskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist.

Atvinnuhlutfall erlendra námsmanna

Þá eru breytingar gerðar, í samráði við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, auk þess sem heimilt starfshlutfall erlendra námsmanna er hækkað úr 40% í 60% sem veitir þeim aukið svigrúm til aukastarfa samhliða námi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum