Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

EES-skýrslan rædd á Alþingi

Framkvæmd EES-samningsins var tekin til sérstakrar umræðu á Alþingi í gær þar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra mælti fyrir árlegri skýrslu um málefnið.

Sérstök skýrsla utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins var lögð fram á Alþingi fyrr á þessu ári og er það í þriðja sinn sem hún kemur út. Í gær var svo efnt til sérstakrar umræðu um málefnið þar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra mælti fyrir skýrslunni.

„Skýrslan er mikilvægur liður í upplýsingamiðlun til þingsins og lýðræðislegu eftirliti þess með framkvæmd samningsins. Umræðan sem við eigum í dag er kærkomið tækifæri til að skiptast á skoðunum um þennan mikilvægasta viðskiptasamning þjóðarinnar. Samning sem hefur stutt við velmegun og lífskjör í landinu í hartnær þrjátíu ár en um þriðjungur núlifandi Íslendinga er fæddur eftir gildistöku samningsins og enn fleiri muna ekki aðra tíma,“ sagði Þórdís Kolbrún í framsögu sinni.

Til stóð að leggja skýrsluna fram á síðastliðnu vorþingi fyrir árið 2021. Sökum þess hve þingið var stutt og skammt liðið á kjörtímabilið var ákveðið að fresta framlagningu skýrslunnar. Vegna þessa tekur skýrslan nú að meginstefnu til tímabilsins fram á mitt ár 2022. Í skýrslunni er gefið heildstætt yfirlit um framkvæmd samningsins á því tímabili sem skýrslan tekur til, þar með talið upptöku ESB-gerða í samninginn og innleiðingu þeirra hér á landi. Auk þess er farið yfir þau mál sem eru ofarlega á baugi um þessar mundir í EES-samstarfinu og samskiptum við Evrópusambandið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum