Hoppa yfir valmynd
3. mars 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Heimsins stærsta kennslustund

Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla á Íslandi, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Íris Sævarsdóttir og Þröstur Flóki Klemensson frá Ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna - mynd

Krakkar frá Ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna mættu í mennta- og barnamálaráðuneytið í dag og afhentu Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, verkefni nemenda sem unnin voru í Heimsins stærstu kennslustund í desember.

Heimsins stærsta kennslustund (World Largest Lesson) er árlegt átak styrkt af UNESCO sem snýr að kennslu á heimsmarkmiðunum. Markmiðið er að efla vitund nemenda og hvetja þá til aðgerða er kemur að sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðunum. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á loftslagsmál og hvernig ungt fólk getur lagt sitt af mörkum til að styðja við aðgerðir í loftslagsmálum. Áherslan í ár er á raddir barna og heimsmarkmið nr. 4 um menntun fyrir alla.

Heimsins stærsta kennslustund var haldin í Landakotsskóla. Það voru nemendur í 8. bekk sem unnu verkefni er snýr að röddum barna og heimsmarkmiði nr. 4 – Menntun fyrir alla. Eliza Reid, forsetafrú og verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, tóku þátt í kennslustundinni og fluttu ávörp þar sem þau ræddu m.a. um mikilvægi menntunar og að hlustað sé á raddir barna. Fulltrúar Ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna stýrðu kennslustundinni.

UNESCO-skólaverkefnið er samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytisins og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, en eitt forgangsmála verkefnisstjórnar sem vinnur að innleiðingu heimsmarkmiðanna hér á landi er að efla menntun og fræðslu þegar kemur að sjálfbærni, friði og mannréttindum.

UNESCO-skólar eru um 12 þúsund talsins um heim allan í yfir 180 löndum. Áhersluatriði þeirra eru friður og mannréttindi, heimsmarkmið og starfsemi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamstarf. UNESCO-skólar á Íslandi eru nú 17 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og tíu framhaldsskólar. Þá eru fleiri skólar í innleiðingarferli.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum