Hoppa yfir valmynd
3. mars 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi í Samráðsgátt

Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025 hefur verið birt í Samráðsgátt.

Stefna um þekkingarsamfélag á Íslandi byggir á sýn um að lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi sé að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Í því felst að hægt sé að vaxa úr sveiflukenndu efnahagsástandi með því að beina sjónum á alþjóðageirann, en honum tilheyra öll fyrirtæki sem fá útflutningstekjur sem byggja á öðru en okkar takmörkuðu auðlindum. Forsenda slíks vaxtar eru breyttar áherslur í menntakerfinu, í vísindum, nýsköpun, sjálfbærum þekkingariðnaði, upplýsingatækni, gervigreind, öflugum fjarskiptum og netöryggi. Með því að virkja hugvitið skapast aðstæður fyrir innlenda og alþjóðlega sérfræðinga í ný og áhugaverð störf í þekkingariðnaði á Íslandi.

Stefnumótandi aðgerðum um eflingu þekkingarsamfélags á Íslandi er ætlað að leysa úr læðingi þá krafta sem myndast við samþættingu hugmynda og hreyfiafls í málaflokkum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Með þessum kröftum gefst tækifæri til að skapa ný störf og ný tækifæri, auka vöxt og verðmætasköpun íslensks atvinnulífs og bætt lífsgæði þjóðarinnar til lengri tíma.

Byggir á þremur meginmarkmiðum

Meginmarkmið stefnu um þekkingarsamfélag á Íslandi skiptast eftir málaflokkum. Á sviði háskóla- og vísindastarfs er meginmarkmið að auka gæði náms og námsumhverfis í samkeppnishæfum háskólum. Meginmarkmið í nýsköpun, hugverki og sjálfbærum þekkingariðnaði er að Ísland verði eftirsóknarverður staður fyrir fleiri ný störf og atvinnugreinar sem byggðar eru á hugviti og að það verði nýtt til að takast á við samfélagslegar áskoranir. Loks er það meginmarkmið á sviði fjarskipta, upplýsingatækni og netöryggi að tæknin tengi byggðir landsins og Ísland við umheiminn og að innviðir og þjónusta mæti þörfum almennings og atvinnulíf. Þá er jafnframt mikilvægt að tæknin stuðli að sjálfbærri þróun byggða og sveitarfélaga um land allt.

Umsagnarfrestur í Samráðsgátt er frá 1. mars til 20. mars 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum