Hoppa yfir valmynd
3. mars 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherrar Íslands og Japan ræða málefni Norðurslóða og hreina orku

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Akihiro Nishimura , umhverfisráðherra Japan. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, átti í dag fund í með Akihiro Nishimura, umhverfisráðherra Japan. Á fundinum, sem fór fram í japanska umhverfisráðuneytinu, ræddu ráðherrarnir m.a. málefni Norðurslóða, en Guðlaugur Þór er staddur í Japan vegna þings Norðurslóða sem þar fer fram um helgina.

Ráðherra átti einnig fund með Shinichi Nakatani, aðstoðarráðherra efnahags- og viðskiptamála, þar sem rædd voru meðal annars loftslagsmál og orkumál og græn umskipti í efnahagslífi. Á fundinum kom fram áhugi Japana á samvinnu á sviði hreinnar orku og vetnismála og að von sé á hátt settri sendinefnd frá Japan í vor til að kynna sér jarðhita.

Í máli sínu vakti Guðlaugur Þór m.a. máls á að ríkin eigi það sameiginlegt að geta nýtt jarðhita til orkuvinnslu. Þá var rædd staðan í viðræðum um gerð nýs alþjóðasamnings um plast og plastmengun, en Ísland hefur hvatt til þess að samningurinn verði metnaðarfullur og að hann verði til þess að stöðva plastmengun í hafi.

Loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamningurinn var einnig til umræðu á fundi ráðherranna og vakti Guðlaugur Þór athygli á metnaðarfullum markmiðum Íslands um að draga úr losun um 55% fyrir 2030 og að Ísland verði orðið kolefnishlutlaust fyrir 2040. Japan stefnir á kolefnishlutleysi árið 2050 og kynnti nýlega áætlun um mikla fjárfestingu í loftslagsvænum lausnum til að ná því markmiði. Japan verður í formennsku á næsta fundi G7-ríkjanna í apríl nk. og ætlar að setja þar á dagskrá málefni loftslags, hreinnar orku og sjálfbærni. 

  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Shinichi Nakatani, aðstoðarráðherra efnahags- og viðskiptamála. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum