Hoppa yfir valmynd
3. mars 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Yfir þrjú þúsund tillögur í nafnasamkeppni um hús íslenskunnar

Hús íslenskunnar - Mynd: EFLA

Mikil þátttaka var í samkeppni um nafn á hús íslenskunnar sem opnar formlega í næsta mánuði. Byggingu innviða hússins er lokið og frágangur innandyra er á lokametrunum.

Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Árnastofnun og Háskóli Íslands efndu til nafnasamkeppni meðal almennings. Frestur til að taka þátt rann út 1. mars og höfðu þá borist tillögur frá hátt í 3.400 þátttakendum svo að nærri lætur að eitt prósent landsmanna hafi tekið þátt í samkeppninni.

Dómnefnd á vegum stofnanna þriggja mun fara yfir allar tillögurnar sem bárust og verður niðurstaða tilkynnt á vígsludegi hússins 19. apríl næstkomandi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarráðherra, heimsótti hús íslenskunnar ásamt starfsfólki ráðuneytisins og Guðrúnu Nordal, forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar í gær.

„Íslenskan og okkar dýrmætasti menningararfur fær loksins lögheimili. Húsið er bjart og einstaklega vel heppnað,“ sagði ráðherra í heimsókn sinni í gær. Hrósaði hún sérstaklega hljóðvist byggingarinnar.

Hópurinn skoðaði meðal annars bókasafnshluta hússins, sýningarrýmið og kjallarann þar sem handritin verða geymd þegar þau eru ekki til sýnis.

Sigurvegari nafnasamkeppninnar mun hljóta viðurkenningu við formlega opnun hússins þann 19. apríl.

Mynd frá heimsókn ráðherra í hús íslenskunnar. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum