Hoppa yfir valmynd
6. mars 2023 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpaði 67. fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í dag ávarp á 67. fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW67) í New York. Forsætisráðherra tók einnig þátt í viðburði norrænna jafnréttisráðherra um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi á netinu.

Yfirskrift fundar Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í ár er Nýsköpun og tæknibreytingar og menntun kvenna á stafrænni öld – Í þágu jafnréttis og valdeflingar kvenna. Í ávarpi sínu ræddi forsætisráðherra m.a. um þær áskoranir sem blasi við í jafnréttismálum þegar kemur að nýsköpun og tækni. Þar þurfi kynjasjónarmið að vera í forgrunni enda séu algrím sem stjórna upplifun okkar á netinu að stærstum hluta hönnuð af körlum. Þá byggjast algrímin á gögnum en staðreyndin er sú að mun minna er til af gögnum um hlutverk og reynslu kvenna í samfélaginu en um karla. Þetta valdi því að stafvæðing geti frekar aukið kynjamisrétti en hitt.

Forsætisráðherra gerði baráttuna gegn hvers kyns ofbeldi gegn konum að umtalsefni, minnti á að kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi eru einhver stærsta ógn sem konur um allan heim búi við og ræddi mikilvægi þess að berjast gegn alvarlegri atlögu að sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama í mörgum ríkjum.

Í tengslum við þema fundarins stóð Norræna ráðherranefndin fyrir viðburði um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi á netinu en Ísland fer með formennsku í nefndinni í ár. Á viðburðinum komu saman jafnréttisráðherrar Norðurlandanna og ræddu áherslur sínar og þær leiðir sem Norðurlöndin fara í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi á netinu.

Forsætisráðherra flutti inngangsorð og fjallaði m.a. um það bakslag sem orðið hefur í jafnréttisbaráttunni sem birtist í ofbeldi, áreiti og hatursorðræðu á netinu. Með því að vinna saman til að bregðast við þessu bakslagi nái Norðurlöndin bestum árangri.

Norrænu jafnréttisráðherrarnir munu svo eiga fund með Simu Bahous, framkvæmdastýru UN Women, þar sem rætt verður um þau málefni sem efst eru á baugi fundar Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Fyrr í dag átti forsætisráðherra fundi með Susanne Raab, jafnréttisráðherra Austurríkis, og Alain Berset, forseta Sviss þar sem m.a. var rætt um samfélagslegar lausnir sem styðja við kynjajafnrétti, s.s. fæðingarorlof sem skiptist jafnt á milli foreldra, leikskóla fyrir öll börn, kynbundinn launamun og kynskiptan vinnumarkað og horfur í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.

  • Forsætisráðherra ávarpaði 67. fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum