Hoppa yfir valmynd
7. mars 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra úthlutar félagasamtökum um 80 milljónum í styrki á sviði heilbrigðismála

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 79,8 milljónum króna í styrki til félagasamtaka sem vinna að margvíslegum verkefnum á sviði heilbrigðismála í þágu tiltekinna hópa. Alls voru veittir styrkir til 40 verkefna og námu styrkfjárhæðir á bilinu 200.000 til 5.000.000 kr. Hæstu styrkina hlutu Alzheimersamtökin, ADHD samtökin, Bergið headspace, Gigtarfélag Íslands, Hjartaheill, Rótin félag um velferð og lífsgæði kvenna og SÍBS.

Styrkir sem þessir eru veittir árlega til verkefna á vegum frjálsra félagasamtaka sem miða að því að veita einstaklingum eða hópum stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Mörg verkefnanna lúta að því að útbúa fræðsluefni og standa fyrir fræðslustarfsemi, standa vörð um hagsmuni félagsmanna eða bjóða félagsmönnum upp á ýmis konar stuðning og ráðgjöf. Að þessu sinni var horft sérstaklega til verkefna sem miða að jafnara aðgengi.

Sem dæmi um verkefni má nefna gerð heimildamyndar um endómetríósu, málþing um næringu í skólum og leikskólum, jafningjafræðslu Hjartaheilla um hjartastopp og heilsufarsmælingar, skaðaminnkunarverkefni fyrir notendur vímuefna, stuðning við tiltekin verkefni Sorgarmiðstöðvarinnar, sérhæfð viðbrögð vegna sjaldgæfra, alvarlegra sjúkdómsgreininga fyrir fjölskyldur hins veika, verkefnið „Skyndihjálp fyrir alla“ sem miðar að því að jafna aðgengi að skyndihjálparfræðslu Rauða krossins o.m.fl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum